Rúnar kominn heim í KR – „Þetta var sjokk“

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. AFP

„Það er erfitt að segja nei við KR og ég er ánægður að við höfum tekið þessa ákvörðun og ég hlakka til að byrja að vinna,“ sagði Rúnar Kristinsson við mbl.is í dag eftir að hafa skrifað undir þriggja ára samning við KR og er hann því tekinn við liðinu á ný, þremur árum eftir að hafa yfirgefið vesturbæinn og haldið erlendis til þjálfunar.

Var langur aðdragandi að endurkomu Rúnars?

„Nei ég segi það nú ekki. Í rauninni hef ég ekki gefið færi á mér í langan tíma, ég hef velt fyrir mér hvað ég vil gera. En svo fór síminn að hringja og eftir góðan umhugsunarfrest og viðræður við ýmsa aðila þá fannst mér best að segja já við KR, mitt uppeldisfélag,“ sagði Rúnar, sem hefur verið orðaður við fleiri félög hér heima. Hann segir að viðræður hafi átt sér stað.

„Ég hef fengið nokkur símtöl og átt viðræður við allavega 1-2 aðra aðila en ég ætla ekki að ræða það neitt frekar. Á endanum valdi ég KR þrátt fyrir ágætar viðræður við aðra,“ sagði Rúnar, en hvað vó þyngst í þeirri ákvörðun?

„Ætli það sé ekki bara hjartað og það að maður hafi starfað hér áður og þekki alla innviði. Ég veit að hér er alltaf stefnt hátt og maður vill vinna í þannig umhverfi. Það er erfitt að segja nei við uppeldisfélagið og kannski vó það þyngst á endanum.

Rúnar Kristinsson stýrði Lilleström í Noregi.
Rúnar Kristinsson stýrði Lilleström í Noregi. Ljósmynd/Ruud, Vidar

Þetta var ákveðið sjokk að vera rekinn

Rúnar tók við Lilleström í Noregi eftir að hafa yfirgefið KR árið 2014. Hann tók svo við Lokeren í Belgíu í október í fyrra en var óvænt rekinn þaðan í ágústmánuði. Hvernig hefur tíminn eftir það verið?

„Ég hef í rauninni bara beðið eftir því að flytja aftur til Íslands og sinna fjölskyldunni. Ég hef hugsað mín mál, þetta var ákveðið sjokk þegar þetta gerðist og ég var smá tíma að melta það og ákveða hvað maður vildi gera næst. Sem betur fer þá opnast dyr þegar aðrar lokast og sem betur fer hef ég ekki þurft að hafa áhyggjur af því að fá vinnu heldur bara spurning hvar ég myndi enda.

Það er ánægjulegt og jákvætt fyrir mig og vonandi næ ég að standa mig aftur hjá KR. Það voru erfiðir tímar úti en ég er spenntur og hlakka til að vinna á fullu í umhverfi sem ég þekki mjög vel,“ sagði Rúnar.

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Held ég sé dottinn út af markaðnum úti

Hann gerði sem fyrr segir þriggja ára samning við KR, er hann þá ekki að líta á þetta sem millibilsástand áður en hann fer aftur út?

„Maður hefur brennt sig á því að samningar gilda ekki endalaust, menn geta verið reknir fyrir lítið og það þekki ég af eigin reynslu. Ég held að það sé gagnkvæmur skilningur í því að þetta sé þriggja ára samningur sem alltaf má endurskoða hvernig hlutirnir þróast. Ég er ekkert að hugsa um annað en að starfa hér áfram, sinna mínu starfi vel og er ekki að hugsa um að fara aftur út,“ sagði Rúnar.

Er hann alveg afdráttarlaus í því?

„Úr því að ég náði ekki að festa rætur og vera lengur þá held ég að maður detti bara út af markaðnum. Það er erfitt að komast inn á þennan markað, ég komst inn á hann en hefði kannski þurft að eiga heilt tímabil með Lokeren til þess  að komast á kortið almennilega. Ég fékk aldrei tækifæri til þess og eiginlega var fótunum kippt undan mér og því sem ég var að byggja upp,“ sagði Rúnar og ætlar því frekar að festa rætur hér heima. Í það minnsta í bili.

„Innst inni sér maður því að möguleikarnir á starfi úti eru ekki brjálæðislega miklir. Ég ætla heldur ekki að vera úti að bíða eftir því, ég á konu og börn á skólaaldri sem skipta mig miklu máli og þau þurfa að lifa sínu lífi. Við ákváðum því að drífa okkur heim og koma þeim í skóla hér á Íslandi.

Kristinn Kjærnested og Rúnar Kristinsson handsala samninginn í dag.
Kristinn Kjærnested og Rúnar Kristinsson handsala samninginn í dag. mbl.is/Andri Yrkill

Hefur mótað nýtt starf hjá KSÍ með Guðna

Guðni Bergsson var kjörinn formaður KSÍ í vetur og hann talaði í kosningabaráttunni mikið um að koma á fót stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá sambandinu. Rúnar var þar nefndur til leiks, en hvaða aðkomu hefur hann haft að því?

„Ég hef átt nokkur samtöl við Guðna, meira við að aðstoða og koma með hugmyndir varðandi þetta starf. Það eru margir sem hafa unnið erlendis sem geta komið með punkta um það hvað þetta starf innan sambandsins á að gera og búa til ramma um það, ef einhverjum verður boðið að taka það að sér. En formlegt tilboð hefur ekki borist, við höfum bara verið að hjálpast að og það er sniðugt hjá Guðna að leita til þeirra sem til þekkja til að móta þetta starf,“ sagði Rúnar“

Voru þá engar formlegar viðræður hafnar við Rúnar um að taka við þessu starfi?

„Nei, bara svona óbeint. Ég held að stjórn KSÍ sé heldur ekki búin að ákveða ennþá hvort þetta starf verði auglýst eða ekki. Og nú er ég búinn að binda mig í KR svo þó það starf verði auglýst breytir það engu fyrir mig,“ sagði Rúnar.

Stefnir hátt með KR á ný

Þegar hann stýrði KR síðast varð liðið tvívegis Íslandsmeistari og vann bikarinn þrisvar sinnum. KR hafnaði í fjórða sæti í sumar og markmiðið hlýtur því að vera að koma KR aftur í fremstu röð.

„Það er alltaf stefna KR að vera í toppbaráttu og í Evrópukeppni og það er ennþá stefnan þó þetta ár hafi ekki farið á þann veg sem menn óskuðu sér. Þá þarf að snúa því við sem fyrst, hvort við þurfum að bæta við okkur leikmönnum eða eigum efnivið hér til að takast á við það stóra verkefni að klóra í titil. Það er fyrsta markmið að ná betri árangri en í sumar og reyna að komast í Evrópukeppni,“ sagði Rúnar Kristinsson við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert