Spilum ekki upp á jafntefli

Ragnar Sigurðsson
Ragnar Sigurðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Sigurðsson er þriðji leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins sem tekur þátt í leikjunum gegn Tyrklandi og Kosóvó í undankeppni HM en Ragnar leikur á föstudaginn sinn 72. landsleik þegar Íslendingar mæta Tyrkjum í Eskisehir.

Aðeins Birkir Már Sævarsson og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson eru leikjahærri en Ragnar sem eru í landsliðshópnum fyrir þessa leiki. Birkir leikur á föstudaginn sinn 75. landsleik og Aron Einar 73. leikinn ef hann nær að hrista af sér meiðslin.

„Við vitum alveg að Tyrkirnir eru góðir þótt þeir hafi ekki sýnt það heima í fyrri leiknum. Þeir á heimavelli með algjörlega tryllta áhorfendur með sér verða mjög erfiðir. Ég hef spilað með landsliðinu í Tyrklandi og með félagsliði og stemningin á leikjunum er engu lík,“ sagði Ragnar Sigurðsson í samtali við mbl.is í dag.

Þrífumst vel undir pressu

„Oftar en ekki höfum við staðið okkur vel þegar mikilvægi leikjanna er mikið og það á svo sannarlega við um leikinn við Tyrkina. Við þrífumst vel undir pressu og þegar það er smá fiðringur í mallanum þá erum við oftast bestir,“ sagði miðvörðurinn sterki.

Spurður við hvernig leik hann búist á föstudaginn sagði Ragnar;

„Þeir ætla sér örugglega að reyna ná marki á okkur snemma en ég held að Tyrkirnir séu meira stressaðir fyrir þennan leik heldur en við. Ef hlutirnir ganga ekki vel hjá þeim verða stuðningsmenn þeirra óþreyjufullir og byrja að baula á leikmenn þeirra. Við þurfum að vera sérstaklega á varðbergi í byrjun leiksins svo við fáum ekki á okkur mark og gerum leikinn erfiðari fyrir okkur.

Eitt stig gæti komið sér vel en eins og þú veist þá munum við ekki spila upp á jafntefli. Við þurfum að vera öruggir í okkar aðgerðum og sjá til hvað þeir ætla sér að gera. Tyrkirnir eru í þeirri stöðu að ekkert nema sigur dugar þeim svo það er pressa á þeim. Á góðum degi fáum við ekki á okkur mark og vonandi verður það niðurstaðan á föstudaginn,“ sagði Ragnar.

Ánægður hjá Rubin Kazan

Ragnar yfirgaf enska B-deildarliðið Fulham í sumar og samdi við rússneska liðið Rubin Kazan. Spurður hvernig líkar hjá félaginu og í borginni sagði Ragnar;

„Ég er bara virkilega ánægður. Þjálfarinn er flottur. Það er mikill agi hjá honum sem er lykilatriði þegar þú spilar í Rússlandi,“ sagði Ragnar en hann lék með liði Krasnodar í Rússlandi áður en hann gekk í raðir Fulham.

„Það er svolítið mikill munur á borgunum og þjálfarinn er allt öðruvísi hjá Rubin Kazan. Það spilar allt öðruvísi fótbolta heldur en Krasnodar. Það var spilaður mikill sóknarbolti hjá Krasnodar en hjá Rubin er leikurinn agaðri og skipulagðari. Mér líður mjög vel hjá Rubin Kazan og er í virkilega góðu formi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka