Líkur hafa aukist á að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verði með íslenska landsliðinu í leiknum gegn Tyrkjum í undankeppni HM annað kvöld.
Aron hefur verið að glíma við meiðsli en á fréttamannafundi í Eskisehir í morgun sagðist hann allur vera koma til og heldur í vonina um að geta verið með en meiðsli í rassvöðva hafa verið að hrjá landsliðsfyrirliðann og hefur hann ekki spilað tvo síðustu leikina hjá Cardiff.
„Mér líður bara betur og held að ég verði klár,“ sagði Aron á fréttamannafundinum í dag.
Um leikinn gegn Tyrkjunum sagði Aron Einar;
„Við þurfum að mæta þeim af krafti, vera skipulagðir og reyna að loka á þeirra hættulegustu leikmenn. Við þurfum að vera vel vakandi inni á vellinum og ég held að við getum ekki verið betur undirbúnir en við erum fyrir þennan mikilvæga leik,“ sagði Aron Einar.