„Við erum alveg í skýjunum eftir þessa frammistöðu,“ sagði Birkir Bjarnason eftir frábæran sigur íslenska landsliðsins gegn Tyrkjum í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.
„Að vinna 3:0 útisigur á móti Tyrkjum er alveg frábært. Spilamennskan var virkilega góð og að komast 2:0 yfir í fyrri hálfleik var frábært. Eftir annað markið óx sjálfstraustið og þegar þriðja markið datt inn hjá okkur snemma í seinni hálfleik þá vissi ég að við myndum vinna leikinn.
Við bökkuðum aftar á völlinn í seinni hálfleik og héldum góðu skipulagi og Tyrkirnir áttu bara engin svör,“ sagði Birkir sem skoraði annað mark Íslendinga í leiknum í kvöld.
„Þetta er eflaust besti útileikur okkar frá upphafi. Varnarleikurinn hjá okkur var frábær og það kom mér svolítið á óvart hvað Tyrkirnir voru daufir. Það var svo til að toppa gleðina í kvöld að fá að vita að frændur okkar Finnar hafi tekið stig á móti Króötum. Nú er þetta allt í okkar höndum sem er frábært.“