Ísland vann sannfærandi og geysilega dýrmætan sigur á Tyrklandi 3:0 í næstsíðustu umferð undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Eskisehir í Tyrklandi í kvöld.
Þar sem Finnland náði jafntefli gegn Króatíu í Zagreb þá er Ísland eitt í efsta sæti riðilsins. Það þýðir einfaldlega að Ísland fer í lokakeppni HM í Rússlandi með sigri á Kósóvó á mánudagskvöldið. Ísland hefur aldrei komist í lokakeppni HM A-landsliða í knattspyrnu. Ísland er með 19 stig, Króatía og Úkraína með 17 stig og Tyrkland er með 14 stig. Efsta sætið í riðlinum gefur sæti á HM og annað sætið gefur keppnisrétt í umspili. Króatía og Úkraína mætast í lokaumferðinni sem þýðir að Ísland getur ekki endað neðar en í 2. sæti riðilsins og er því öruggt um sæti í umspili.
Þegar tveimur umferðum var ólokið voru Króatía og Ísland með 16 stig, Tyrkland og Úkraína 14 stig, Finnland 7 stig og Kósóvó 1 stig. Króatía gerði 1:1 jafntefli við Finnland og Úkraína sigraði Kósóvó 2:0.
Íslendingar léku svo gott sem óaðfinnanlega í Tyrklandi í kvöld, einum erfiðasta útivelli í fótboltanum í Evrópu. Tyrkir komust lítt áleiðis fyrstu tuttugu mínúturnar og Íslendingar tóku smám saman frumkvæðið. Jóhann Berg Guðmundsson kom Íslandi yfir á 32. mínútu með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Jóns Daða Böðvarssonar frá vinstri.
Tyrkir voru lengi að jafna sig á markinu og okkar menn refsuðu þeim með marki úr skyndisókn á 39. mínútu. Aftur átti Jón Daði stoðsendinguna. Laumaði honum á Birki Bjarnason sem komst í dauðafæri vinstra megin í teignum og sendi boltann í slána og inn með vinstri fæti.
Líklega fannst flestum íslenskum knattspyrnuáhugamönnum 0:2 vera frábær staða að loknum fyrri hálfleik en lengi getur gott batnað. Ísland fékk hornspyrnu frá hægri og hana tók Jóhann Berg Guðmundsson. Sendi á fjærstöngina þar sem Aron Einar Gunnarsson var einhverra hluta vegna aleinn og óvaldaður. Hann skallaði boltann inn á markteig og þar skoraði miðvörðurinn Kári Árnason og innsiglaði sigurinn á 50. mínútu.
Um fyrsta sigur Íslendinga er að ræða á tyrkneskri grundu í undankeppni stórmóts síðan 1980 en þjóðirnar hafa oft dregist saman í undankeppnunum og jafnan verið þungur róður í útileikjunum gegn Tyrkjum þótt heimaleikirnir hafi gengið vel.
Ágætt er að hnykkja á því að Ísland er efst í riðli þar sem þrjár aðrar þjóðir eru sem einnig voru í síðustu lokakeppni. Ísland hefur nú unnið Tyrki tvívegis í riðlinum en Tyrkir voru á EM í Frakklandi í fyrra.