Frábærlega útfært að mati Guðna

Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson. mbl.is/Golli

„Það var auðvitað bara stórkostlegt,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, þegar mbl.is spurði hann hvernig verið hefði að sitja í stúkunni í Eskisehir og verða vitni að mikilvægum 3:0 sigri Íslands á Tyrklandi í undankeppni HM í knattspyrnu. 

„Þessi frammistaða var með þeim betri hjá íslensku landsliði ef ekki sú besta. Leikurinn var frábærlega vel útfærður. Leikskipulagið, samheldnin og einbeitingin var hreint út sagt frábær. Tyrkirnir áttu bara engin svör við þessu. Við vörðumst vel en vorum á sama tíma hættulegir í okkar sóknum. Niðurstaðan varð 3:0 og frábær sigur fyrir okkur,“ sagði Guðni og sagðist snemma leiks hafa fengið góða tilfinningu. 

„Leikurinn fór reyndar hægt af stað og varfærnislega. Eftir að við skoruðum fyrsta markið þá einhvern veginn hugsaði maður með sér að þetta yrði okkar kvöld. Það skein af öllum okkar leikmönnum hversu einbeittir þeir voru og staðráðnir í að sækja þessi þrjú stig sem voru í boði. Tyrkirnir voru sjálfir í bullandi séns að ná öðru af tveimur efstu sætunum í riðlinum. Í ljósi þess er auðvitað frábært hvernig þetta fór. Við gjörsigruðum þá á endanum,“ sagði Guðni Bergsson í samtali við mbl.is í kvöld.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka