„Get ekki beðið eftir að spila fyrir Ísland“

Jón Daði Böðvarsson með tilþrif gegn Tyrkjum á Laugardalsvelli.
Jón Daði Böðvarsson með tilþrif gegn Tyrkjum á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, vonast til þess að ná að sýna sitt rétta andlit í komandi landsleikjum við Tyrkland og Kósóvó og komi þannig í góðu formi aftur til síns félagsliðs, Reading á Englandi.

Jón Daði er í viðtali á við staðarmiðil Reading í dag, en hann kom þangað í sumar frá Wolves. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn og hefur hann aðeins byrjað fjóra leiki.

„Ég get ekki beðið eftir að spila fyrir Ísland. Framundan eru tveir risaleikir fyrir mína þjóð og vonandi getum við farið alla leið á HM. Það er alltaf gott að skipta aðeins um umhveri, landsliðinu gengur vel og vonandi fer að ganga betur hjá Reading. Við megum ekki líta neikvætt á hlutina heldur horfa fram á veginn,“ segir Jón Daði.

Hann hefur verið mikið á bekknum hjá Reading en segir að það hafi ekki haft áhrif á sjálfstraustið.

„Maður vill byrja alla leiki, en það er ekkert hægt að segja við því enda er það ákvörðun þjálfarans og þú ert hluti af hans liði. Það besta sem ég get gert er að koma af bekknum og standa mig eins vel og ég get á þeim skamma tíma sem ég fæ. Ég veit hvað ég get, ég verð að halda haus og spila eins og ég geri best,“ segir Jón Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka