Lifir HM-draumurinn kvöldið?

Íslenska landsliðið á æfingu á keppnisvellinum í Eskisehir í Tyrklandi.
Íslenska landsliðið á æfingu á keppnisvellinum í Eskisehir í Tyrklandi. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Það verður mikið undir í kvöld þegar Tyrkland og Ísland mætast í næstsíðustu umferð riðlakeppninnar í undankeppni HM í knattspyrnu í Eskisehir í kvöld. Sigur kemur Íslendingum í gott færi að vinna riðilinn og fá þar með farseðilinn á HM í Rússlandi á næsta ári, jafntefli heldur þeim möguleika að ná öðru sætinu og komast þar með í umspil um sæti í á HM en tap mun líklega verða til þess að HM-draumurinn verður úti.

Riðill okkar Íslendinga er sá jafnasti í undankeppninni en fyrir tvær síðustu umferðirnar eru Króatía og Ísland með 16 stig og Tyrkland og Úkraína hafa 14. Allar þjóðirnar eiga möguleika á að vinna riðilinn og fram undan er gríðarlega harður slagur um tvö efstu sætin. Í lokaumferðinni á mánudaginn taka Íslendingar á móti Kósóvó á Laugardalsvellinum.

Aron vongóður um að spila

Það hefur verið rætt og ritað um það hvort landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verði með í kvöld en hann hefur glímt við meiðsli í rassvöðva og hefur ekki spilað síðustu tvo leiki með liði sínu, Cardiff. Aron Einar sagði á fréttamannafundi í gær að líkur hefðu aukist á að hann yrði með.

„Mér líður bara betur og held að ég verði klár,“ sagði Aron Einar en allir tóku þátt í æfingunni á hinum glæsilega Eskisehir-leikvangi í gær þar sem um 35 þúsund áhorfendur verða nær allir á bandi Tyrklandi og búast má við ærandi hávaða á vellinum á meðan leikurinn stendur yfir. Á þessum sama leikvangi unnu Tyrkir lið Króata í síðustu umferð og blönduðu sér þar með í toppbaráttu riðilsins. Tyrkir eins og Íslendingar eru með örlögin í sínum höndum um að komast á HM.

,,Við verðum að vera mjög skipulagðir, reyna að loka á þeirra hættulegustu menn, stundum að tvöfalda eða þrefalda á leikmenn Tyrkjanna og reyna svo að sækja hratt á þá þegar færi gefst. Við verðum að vera klárir í öllu því sem Tyrkirnir reyna. Ég veit að menn verða klárir í þau hlutverk sem þeir verða settir í og ég tel að við gætum ekki verið betur undirbúnir fyrir þennan mjög svo mikilvæga leik. Við vitum allir að við þurfum að eiga toppleik til að ná þremur stigum,“ sagði Aron Einar.

Nánar er fjallað um leik Tyrklands og Íslands í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert