Margt sem ber að varast

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Heimir Hallgrímsson var alls ekkert að fara fram úr sér í viðtali á RÚV beint eftir magnaðan 3:0 sigur Íslands á Tyrklandi í undankeppni HM. Íslandi nægir að sigra Kósóvó á mánudag og þá er farseðillinn til Rússlands kominn í hús. 

Ísland hefur 19 stig í 1. sæti en Króatía og Úkraína hafa 17 stig. Við tekur hins vegar langt ferðalag til Íslands frá Tyrklandi.

„Nú tekur við að púsla mönnum saman og langt ferðalag. Það er einn hvíldardagur fram að næsta leik. Við þurfum að safna orku. Það fór mikil orka í þennan leik. Svo verðum við bara að hjálpast að að fara ekki fram úr okkur. Við þjálfararnir, leikmennirnir og plís þið fjölmiðlamenn að fara ekki fram úr sér,“ sagði Heimir.

„Við eigum minningar frá leikjum gegn Kasakstan þar sem við áttum í erfiðleikum að brjóta þá niður og næsta leik þar á eftir gegn Lettum. Við erum minnugir leiksins úti í Albaníu gegn Kósóvó þar sem við lentum í vandræðum á móti þeim. Það ber margt að varast og maður má alls ekki fara fram úr sér,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert