Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH, segir ekkert til í því að hann sé á leið til Færeyja að taka þar við færeysku meisturunum í Víkingi frá Götu.
Færeyski miðillinn in.fo sagði viðræður á milli forráðamanna Víkings og Heimis hafa átt sér stað en Heimir segir ekkert til í því, og að ólíklegt sé að hann taki að sér nýtt starf alveg á næstunni. Heimir var látinn fara frá FH í haust eftir afar farsælan feril sem leikmaður og þjálfari liðsins.
„Það er ekkert að gerast,“ sagði Heimir í stuttu spjalli við mbl.is og þvertók fyrir að nokkur samskipti hefðu verið á milli sín og Víkings.
„Ég er bara að skoða mín mál og svo sjáum við til hvað gerist. Mér finnst það frekar ólíklegt [að eitthvað gerist hjá honum á næstunni]. Núna er maður bara í fríi, að njóta lífsins og hafa gaman af þessu,“ sagði Heimir.
Við þetta má bæta að Brandur Jacobsen, formaður Víkings, segir í samtali við Fótbolta.net að félagið hafi ekki rætt við nokkurn þjálfara um að taka við liðinu nú þegar ljóst sé að Sámal Erik Hentze verði ekki áfram þjálfari þess.