Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu, er með tilboð í höndunum frá færeyska liðinu HB frá Þórshöfn. Þetta staðfesti Heimir í stuttu spjalli við mbl.is nú síðdegis.
Heimir var í Færeyjum um nýliðna helgi þar sem hann ræddi við forráðamenn HB og hann kom heim í gær með tilboð í farteskinu frá Færeyingunum.
„Þeir gerðu mér tilboð sem ætla að gefa mér nokkra daga til að vega og meta áður en ég tek ákvörðun. Mér leist bara vel á það sem HB hafði fram að færa og það ætti að skýrast áður en þessi vika er búin hvert framhaldið verður,“ sagði Heimir í samtali við mbl.is.
Heimir hætti sem þjálfari FH í byrjun mánaðarins en félagið ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans við félagið. Heimir stýrði FH-liðinu frá 2008 og undir hans stjórn varð liðið fimm sinnum Íslandsmeistari, bikarmeistari einu sinni og komst í tvígang í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
HB er sigursælasta lið Færeyja og hefur orðið færeyskur meistari 22 sinnum, síðast árið 2013. Liðið varð meistari undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar, sem nú stýrir ÍBV, árið 2010. HB hafnaði hins vegar í 5. sæti af 10 liðum á síðustu leiktíð í færeysku úrvalsdeildinni, sem lauk fyrir viku.