Kvennalið Breiðabliks heldur áfram að styrkja leikmannahóp sinn fyrir næstu leiktíð en í dag gekk Alexandra Jóhannsdóttir, fyrirliði U19 ára landsliðsins, til liðs við Kópavogsliðið frá Haukum. Þetta kemur fram á breidablik.is
Alexandra skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðablik en hún hefur leikið allan sinn feril með Haukum. Alexandra er 17 ára gömul og hefur spilað 41 meistaraflokksleik með Haukunum. Hún hefur spilað samtals 29 leiki með U17 og U19 ára landsliðinu og hefur í þeim skorað samtals 10 mörk.
Í frétt á breidablik.is segir enn fremur:
„Við Blikar viljum nota tækifærið og þakka Haukum sértaklega fyrir lipurð og skilning í tengslum við þessi vistaskipti þar sem sameiginlegir hagsmunir félaganna og leikmannsins voru hafðir að leiðarljósi og ljóst að samstarf félaganna mun í framhaldi af þessu eflast til framtíðar.“
Blikarnir leita því í Hafnarfjörðinn eftir liðsstyrk en á dögunum gekk hin stórefnilega Karólína Lea Vilhjálmsdóttir til liðs við Breiðablik frá FH.