Heimir tekur við liði HB

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH, hefur tekið tilboði færeyska liðsins HB í Þórshöfn en Heimir fékk þjálfaratilboð frá félaginu eftir að hafa verið boðið út til viðræðna um síðustu helgi.

Heimir mun gera tveggja ára samning við HB en sem kunnugt er lét hann af störfum sem þjálfari FH í síðasta mánuði eftir að félagið ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans við það.

„Ég fer til Þórshafnar þann 13. janúar og verð í eina viku þar sem ég mun ég klára samningsmálin, hitta leikmennina, fara yfir stöðuna og ég tek svo til starfa að fullu síðar í janúar,“ sagði Heimir í samtali við mbl.is.

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er bara mjög spenntur fyrir þessu nýja tækifæri sem mér gefst. HB er flottur klúbbur sem gekk kannski ekki alveg eins vel og menn hefðu viljað á síðasta tímabili. Forráðamenn félagsins eru stórhuga og vilja bæta úr þessu. Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þetta starf og ég lít á það sem nýja áskorun fyrir mig,“ sagði Heimir.

Heimir er sigursælasti starfandi þjálfari landsins en hann þjálfaði lið FH frá árinu 2008 og undir hans stjórn varð það fimm sinnum Íslandsmeistari, einu sinni bikarmeistari og komst tvívegis í umspil um sæti í Evrópudeildinni.

Hefur þú uppi áform um að fá íslenska leikmenn til HB?

„Ég á eftir að kynna mér leikmannahópinn hjá HB betur og sjá hvar liðið þarf að styrkja sig. En ég mun pottþétt horfa til þess að fá einhverja leikmenn frá Íslandi. Hér er sá markaður sem ég þekki best til,“ sagði Heimir.

HB er sigursælasta lið Færeyja og hefur orðið meistari 22 sinnum, síðast árið 2013. Liðið varð meistari undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka