Bjarki Steinn Bjarkason unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu er genginn í raðir ÍA og hefur skrifað undir tveggja ára samning við Akranesliðið.
Bjarki Steinn kemur til Skagamanna frá Aftureldingu í Mosfellsbæ en þessi 17 ára gamli leikmaður lék 10 leiki með Mosfellingum í 2. deildinni á síðustu leiktíð og skoraði í þeim tvö mörk. Hann hefur spilað með U17 og U18 ára landsliðunum.
Bjarki Steinn er af góðu íþróttakyni en faðir hans, Bjarki Sigurðsson, lék um árabil með íslenska landsliðinu í handknattleik og bræður hans, Örn Ingi Bjarkason og Kristinn Hrannar Bjarkason, eru báðir í handboltanum, Örn Ingi með Hammarby í Svíþjóð og Kristinn Hrannar með liði Aftureldingar.
„Það er mjög jákvætt að fá Bjarka Stein loksins til félagsins. Bjarki Steinn er ungur og efnilegur leikmaður og sem styrkir okkur mikið. Hann er líka með mikinn metnað til að ná langt í fótbolta og það er það sem við leitum af í leikmönnum hér á Skaganum, svo hann á bara eftir að vaxa og dafna og gera frábæra hluti í framtíðinni. Hann á framtíðina fyrir sér,“ segir Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA á vef félagsins.