Svava Rós til Noregs – „Vildi taka næsta skref“

Svava Rós Guðmundsdóttir.
Svava Rós Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líst mjög vel á þetta,“ sagði knattspyrnukonan Svava Rós Guðmundsdóttir við mbl.is en hún hefur yfirgefið herbúðir Breiðabliks og er búin að semja við norska úrvalsdeildarfélagið Røa til eins árs.

Svava er 22 ára gömul og hefur leikið með Breiðabliki síðastliðin þrjú ár en var þar áður í herbúðum Vals. Hún spilaði alla 18 leiki Breiðabliks í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar og skoraði þrjú mörk, en hún hefur verið stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar síðastliðin tvö ár.

„Ég fór og skoðaði aðstæður fyrir jól, æfði með liðinu og þetta leit allt mjög vel út. Ég er reyndar svo góðu vön hérna heima að geta æft inni og slíkt enda Breiðablik með mjög góða aðstöðu, en þetta leit mjög vel út,“ sagði Svava Rós.

Röa hafnaði í fimmta sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en var í baráttu í efri hlutanum lengst af. Svava segist hafa rætt við landsliðskonuna Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur sem hefur leikið í norsku deildinni síðastliðin ár, nú síðast með Vålerenga, og fengið hennar innsýn í norska boltann.

„Hún sagði að þetta lið væri mjög sterkt sóknarlega og með mikinn hraða. Þetta væri eitt af fjórum bestu liðunum í deildinni sem alltaf væri erfitt að ná stigum gegn. Ég held því að það sé hægt að gera góða hluti þarna.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir á landsliðsæfingu. mbl.is/Golli

Stefnir á byrjunarlið í landsliðinu

Svava Rós æfði með Gautaborg í Svíþjóð síðasta vetur en meiðsli komu í veg fyrir að hún samdi við liðið. Hún átti svo stórgott sumar með Blikum, en var alltaf planið að fara í atvinnumennskuna eftir að tímabilinu hér heima lauk í haust?

„Já og nei. Ég hefði alveg verið sátt með að vera áfram hjá Breiðablik en ég vildi líka breyta smá til og fara út. Ég ákvað því að kíkja á þau tilboð sem komu og leist vel á þetta. Ég fékk einhver fleiri tilboð en ekkert sem mér leist jafn-vel á og þetta.“

Svava Rós á að baki sex landsleiki fyrir Ísland og var inni í myndinni fyrir Evrópumótið í Hollandi síðasta sumar, en komst ekki í lokahópinn. Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kallaði svo eftir því að fleiri íslenskar knattspyrnukonur færu í atvinnumennsku. Tók Svava það til sín?

„Já ég hafði það auðvitað bak við eyrað og mig langar náttúrulega að ná föstu sæti í landsliðshópnum. Ég vona að þetta muni hjálpa mér að koma mér betur inn í hópinn og vonandi í byrjunarliðið enda er það auðvitað stefnan. Ég vildi samt líka bara taka næsta skref. Ég hef heyrt að þetta lið sé góður vettvangur að koma leikmönnum enn þá lengra,“ sagði Svava Rós Guðmundsdóttir við mbl.is.

Svava er fimmti leikmaður Breiðabliks sem heldur í atvinnumennsku síðan í haust. Fanndís Friðriksdóttir gekk í raðir Marseille í Frakklandi, Berglind Björg Þorvaldsdóttir fór til Verona á Ítalíu, Rakel Hönnudóttir samdi við Limhamn Bunkeflo 07 í Svíþjóð og Ingibjörg Sigurðardóttir við Djurgården þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert