Fetar í fótspor foreldranna

Tryggvi Hrafn Haraldsson í leik með 21-árs landsliði Íslands.
Tryggvi Hrafn Haraldsson í leik með 21-árs landsliði Íslands. mbl.is/Golli

Tryggvi Hrafn Haraldsson, knattspyrnumaður frá Akranesi, fetaði í fótspor foreldra sinna í dag þegar hann skoraði eitt marka Íslands í 6:0 sigrinum á Indónesíu í vináttulandsleiknum í Yogyakarta.

Tryggvi, sem nú leikur með Halmstad í Svíþjóð, kom inná sem varamaður á 68. mínútu og skoraði fjórða mark Íslands í leiknum með sinni fyrstu snertingu. Þetta var hans annar A-landsleikur.

Haraldur Ingólfsson faðir hans skoraði tvö mörk fyrir A-landslið Íslands sem bæði voru sigurmörk. Haraldur skoraði gegn Lúxemborg í 1:0 sigri í undankeppni HM á Laugardalsvellinum árið 1993 og hann skoraði einnig sigurmark gegn Kúveit í vináttulandsleik sem fram fór í Kúveit árið 1994.

Jónína Víglundsdóttir, móðir Tryggva, skoraði einnig tvívegis fyrir A-landslið kvenna. Hún gerði sigurmark gegn Wales, 1:0, í vináttulandsleik á útivelli árið 1993 og síðan skoraði hún eitt marka Íslands í 3:3 jafntefli gegn Frakklandi í undankeppni EM á Akranesvelli árið 1995.

Jónína Víglundsdóttir lyftir bikar sem fyrirliði ÍA.
Jónína Víglundsdóttir lyftir bikar sem fyrirliði ÍA. mbl.is/Árni Sæberg
Haraldur Ingólfsson, til vinstri, í búningi ÍA.
Haraldur Ingólfsson, til vinstri, í búningi ÍA. mbl.is/Sigurður Elvar Þórólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert