Valur og norska úrvalsdeildarfélagið Sarpsborg hafa komist að samkomulagi um kaupverð á Orra Sigurði Ómarssyni, miðverði Íslandsmeistaranna.
Orri heldur til Noregs eftir helgi í læknisskoðun og verður að öllum líkindum endanlega gengið frá félagsskiptunum í leiðinni.
Varnarmaðurinn var nálægt því að ganga í raðir Horsens í Danmörku fyrr í vetur, en að lokum gekk það ekki upp. Sarpsborg hafnaði í 3. sæti norsku deildarinnar á síðustu leiktíð, tíu stigum á eftir meisturum Rosenborgar.
Orri hefur leikið þrjá A-landsleiki fyrir Ísland, þann síðasta gegn Indónesíu fyrr í mánuðinum.