Hver stýrir liði Íslands í Þjóðadeildinni í haust?

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ísland mætir Sviss og Belgíu í hinni nýju Þjóðadeild knattspyrnusambands Evrópu næstkomandi haust, eins og fram kom í gær. Ekki liggur hins vegar ljóst fyrir í dag hver mun stýra íslenska landsliðinu í þeim leikjum, en samningur Heimis Hallgrímssonar rennur út að loknu heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

„Það er gagnkvæmur áhugi á því að halda samstarfinu áfram,“ sagði Heimir við Morgunblaðið í gær, en vildi annars lítið tjá sig um málið og sagði það ótímabært á þessari stundu. Verið væri að leggja lokahönd á undirbúning þessa einstaka árs í sögu karlalandsliðsins í knattspyrnu og sú sameiginlega ákvörðun verið tekin að fresta frekari viðræðum um hugsanlegan nýjan samning.

Heimir var fyrst ráðinn til starfa hjá landsliðinu þegar hann var kynntur sem aðstoðarþjálfari Lars Lagerbäck síðla árs 2011. Tveimur árum síðar tilkynnti KSÍ svo að Heimir og Lagerbäck yrðu saman aðalþjálfarar liðsins fram yfir lokakeppni EM 2016, en að Heimir yrði í kjölfarið einn aðalþjálfari fram yfir HM 2018, kæmist Ísland þangað.

Undir forystu Geirs Þorsteinssonar freistaði KSÍ þess reyndar að fá Lagerbäck til að halda áfram störfum með Heimi eftir EM, en þær viðræður runnu út í sandinn fyrir mótið. Í viðtali við DV síðastliðið haust viðurkenndi Heimir að hafa verið ósáttur við þessa viðleitni Geirs, og að með því að ræða við Lagerbäck hefði KSÍ í raun brotið gegn samningi Heimis við sambandið.

Nánar er fjallað um málið og rætt við Guðna Bergsson, formann KSÍ, í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert