Landsliðskonan Agla María Albertsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks, en hún kemur frá Stjörnunni þar sem hún hefur verið síðustu tvö ár. Þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is í kvöld.
Agla er 18 ára gömul og skaust hún fram á sjónarsviðið með glæsilegri frammistöðu með Stjörnunni síðasta sumar. Í kjölfarið lék hún sína fyrstu landsleiki og lék hún í öllum þremur leikjum Íslands á EM í Hollandi síðasta sumar og er hún því gríðarlega mikill liðsstyrkur fyrir Breiðablik. Alls hefur hún leikið tíu leiki fyrir A-landsliðið.
Agla lék 43 keppnisleiki fyrir Stjörnuna og skoraði í þeim 11 mörk. Hún kom til Stjörnunnar frá Val, þar sem hún lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki árið 2015. Agla er uppalin hjá Breiðabliki, en hún hefur ekki leikið með meistaraflokki félagsins hingað til.