Agla María Albertsdóttir, landsliðskona í fótbolta, samdi við uppeldisfélagið sitt í Breiðabliki til tveggja ára í dag. Hún kemur til Breiðabliks frá Stjörnunni þar sem hún hefur verið undanfarin tvö ár. Agla sagði í samtali við mbl.is í kvöld að valið stóð á milli Breiðabliks og Stjörnunnar, en Valur setti sig einnig í samband við Öglu.
„Ég sagði upp samningi mínum við Stjörnuna eftir síðasta tímabil og ég er búin að vera samningslaus síðan þá. Það voru þrjú lið sem komu til greina, Stjarnan, Breiðablik og Valur. Ég heyrði aðeins í Val en að lokum valdi ég á milli Breiðabliks og Stjörnunnar."
„Ég er uppalin hjá Breiðabliki og lék með Val í sex mánuði áður en ég fór í Stjörnuna þar sem ég er búin að vera í tvö ár. Ég vann helling í yngri flokkunum hjá Breiðabliki og ég á góðar minningar þaðan."
„Ég er búin að vita af áhuga Breiðabliks í svolítinn tíma, en þetta gerðist hratt síðustu vikuna. Ég er búin að vera samningslaus lengi, svo það er búið að vera langur aðdragandi að þessu."
Hún segir tvennt spila inn í ákvörðunina; spennandi tíma fram undan hjá Breiðabliki ásamt því að hún er uppalin í Kópavogi.
„Mér finnst það sem er í gangi hjá Breiðabliki meira spennandi en hjá Stjörnunni og svo spilaði það inn í að ég er uppalin hjá félaginu. Markmiðið hjá Breiðablik er alltaf að vinna allt sem er í boði."
Hún segist kveðja Stjörnuna með söknuði.
„Það tekur mjög mikið á að kveðja Stjörnuna. Þetta voru mjög góð tvö ár sem ég átti þar. Það er búið að vera geggjað að vera með þessu liði. Það verður skrítið að mæta í grænu á Stjörnuvöllinn næsta sumar, en þetta er krefjandi verkefni og ég hlakka til," sagði Agla að lokum.