Hólmfríður er barnshafandi

Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður KR, á von á barni í júní og leikur því að öllum líkindum lítið sem ekkert með liði KR í Pepsi-deildinni næsta sumar.

Hólmfríður greinir frá tíðindunum á Instagram-síðu sinni, en hún er 33 ára gömul og sneri heim úr atvinnumennsku fyrir síðasta tímabil hér heima.

„Spennandi tímar fram undan, en mikið hlakka ég til nýs hlutverks í lok júní, þá ætlar einn lítill prins að láta sjá sig. Núna hefst lífið af alvöru,“ skrifar Hólmfríður á Instagram, en hún bætist þar í hóp fleiri landsliðskvenna sem bera barn undir belti.

Systurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur, sem eru á mála hjá Val, eiga báðar von á sér á vormánuðum og þá er Dagný Brynjarsdóttir einnig barnshafandi, sem og Vesna Elísa Smiljkovic, leikmaður Vals og landsliðsfyrirliði Serbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert