Knattspyrnudeild Fylkis tilkynnti nú í kvöld að sóknarmaðurinn Jonathan Glenn hefði samið við félagið til næstu tveggja ára.
Glenn er þrítugur að aldri og þekkir vel til hér á landi. Hann kom fyrst til ÍBV og skoraði 16 mörk í Pepsi-deildinni 2014 og fyrri hluta 2015, áður en hann færði sig til Breiðabliks. Alls skoraði hann 24 mörk í 55 leikjum í deildinni á þremur árum, en á síðasta ári spilaði hann í Bandaríkjunum, fyrst með Jacksonville Armada í D-deild en síðan með North Carolina í B-deildinni.
Glenn á þar að auki að baki sex landsleiki fyrir Trínidad og Tóbagó, en hann er væntanlegur til landsins á næstu dögum.