Breiðablik fór illa með ÍBV er liðin mættust í Lengjubikar kvenna í fótbolta í Fífunni í kvöld. Lokatölur urðu 8:0, Breiðabliki í vil og skoraði landsliðskonan Agla María Albertsdóttir fjögur mörk.
Guðrún Gyða Haralz kom Breiðabliki yfir á 6. mínútu og skoraði Agla María sitt fyrsta mark á 33. mínútu. Þremur mínútum síðar skoraði Sólveig Jóhannesdóttir Larsen og Agla María var aftur á ferðinni rétt fyrir leikhlé með sitt annað mark og fjórða mark Breiðabliks.
Alexandra Jóhannsdóttir, sem kom til Breiðabliks frá Haukum, skoraði fimmta markið á 47. mínútu og Agla María fullkomnaði þrennuna á 63. mínútu. Sex mínútum síðar skoraði Guðrún Gyða sitt annað mark og augnablikum eftir það skoraði Agla María fjórða markið og tryggði Breiðabliki risastóran sigur á bikarmeisturunum.
Breiðablik hefur unnið báða leiki sína til þessa á mótinu, en leikurinn var sá fyrsti sem ÍBV spilar.