Breiðablik og KA bæði taplaus

Andri Rafn Yeoman skoraði eitt marka Breiðabliks í sigri liðsins …
Andri Rafn Yeoman skoraði eitt marka Breiðabliks í sigri liðsins gegn Magna. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Breiðablik og KA hafa borið sigurorð í fyrstu þremur leikjum sínum í riðli 2 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu. Breiðablik bar sigur úr býtum, 3:0, þegar liðið mætti Magna í Fífunni í Kópavogi í dag.

Það voru Elfar Freyr Helgason, Andri Rafn Yeoman og Aron Bjarnason sem skoruðu mörk Breiðabliks í leiknum. Breiðablik hefur skorað 16 mörk í sigurleikjunum þremur, en liðið hefur ekki fengið á sig mark í riðlakeppninni til þessa. 

KA fór með 3:2-sigur af hólmi gegn KR í leik liðanna í sama riðli í Egilshöllinni í Grafarvogi. KA-menn byrjuðu betur í leiknum, en Elfar Árni Aðalsteinsson kom norðanmönnum yfir með marki sínu eftir tæplega tíu mínútna leik.

Óskar Örn Hauksson jafnaði hins vegar metin fyrir KR um miðbik fyrri hálfleiks. Óskar Örn var svo aftur á ferðinni í upphafi síðari hálfleiks þegar hann skoraði annað mark sitt og kom KR yfir í 2:1.

KA skoraði síðan tvö mörk með skömmu millibili um miðbik seinni hálfleiks. Daníel Hafsteinsson jafnaði metin fyrir KA og það var svo varamaðurinn Frosti Brynjólfsson sem skoraði sigurmark KA tveimur mínútum síðar.

Óskar Örn fékk upplagt tækifæri til þessa að bæta þriðja marki sínu við í leiknum og tryggja KR stig, en hann brenndi af vítaspyrnu undir lok leiksins. Þá átti Óskar Örn skot í slá á lokaandartökum leiksins. 

Breiðablik og KA trónir taplaus á toppi riðilsins, en Breiðablik er í toppsætinu þar sem liðið hefur betri markatölu en KA. KR er síðan með fjögur stig í þriðja sæti riðilsins. Magni er svo í fjórða sæti riðilsins með eitt stig og Þróttur og ÍR verma botnætin án stiga.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka