„Við vorum bara tvær bestu vinkonur að fara út í atvinnumennsku, búið að dreyma um þetta síðan við vorum 14 ára, en svo var þetta martröð frá fyrsta degi.“ Þannig lýsa Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir haustmánuðum sínum í Verona á Ítalíu þar sem þessar landsliðskonur í knattspyrnu reyndu fyrir sér í atvinnumennsku fyrri hluta vetrar.
Martröðin hefur loks tekið enda, samningum þeirra við Verona hefur verið rift og þær eru byrjaðar að æfa með sínum félagsliðum á Íslandi. Berglind með Breiðabliki en Arna Sif með Þór/KA, uppeldisfélaginu sem hún snýr nú aftur til eftir þriggja ára fjarveru.
Segja má að forráðamenn knattspyrnufélagsins Verona hafi svikið flestallt sem þeim Berglindi og Örnu hafði verið lofað. Þær fengu ekki notalegu íbúðina í hjarta Verona eða vespurnar til að skutlast um á, nú eða bara launin sín greidd á réttum tíma. Langt því frá. Við þetta bættist svo hrokafullur gamall þjálfari, harðstjóri af „gamla skólanum“ sem bannaði leikmönnum að brosa á æfingum og talaði ekki stakt orð í ensku.
Arna kom til Verona í október, örlitlu síðar en Berglind, og vinkonurnar voru góður liðstyrkur fyrir Verona í ítölsku A-deildinni. Utan vallar gekk hins vegar allt á afturfótunum, en fyrstu vikurnar voru þær í lítilli íbúð með fjórum samherjum sínum, urðu að deila saman rúmi og raunar einnig að deila skápaplássi í herbergi sínu með liðsfélaga sem svaf frammi á gangi!
Sjá ítarlega grein um mál þetta í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.