Arna Sif Ásgrímsdóttir samdi við uppeldisfélag sitt, Þór/KA, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í knattspyrnu kvenna. Samningur Örnu Sifjar sem kemur til Þórs/KA frá ítalska liðinu Verona er til tveggja ára.
Arna Sif lék fyrst með Þór/KA í efstu deild árið 2007 og lék með liðinu til ársins 2014. Arna Sif var máttarstólpi í liði Þórs/KA þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2012 í fyrsta skipti í sögu félagsins.
Arna Sif sem hefur leikið 12 A-landsleiki fór frá Þór/KA til Gautaborgar og lék í sænsku úrvalsdeildinni sumarið 2015, en hún lék svo með Val sumarið 2016 og síðasta sumar, áður en hún gekk í raðir Verona síðasta haust.