Yfir 60 þúsund miðar hafa selst á vináttulandsleik Íslands og Mexíkó sem fram fer á Levi’s Stadium í Santa Clara, Kaliforníu á morgun.
Þetta kom fram undir lok blaðamannafundar Íslands á leikvangnum í dag þar sem þeir Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum.
Um 40 fréttamenn, ljósmyndarar og aðrir fjölmiðlamenn sátu fundinn og ljóst er að gríðarlegur áhugi er fyrir íslenska liðinu, bæði í Mexíkó en einnig meðal Bandaríkjamanna.
Milli Kaliforníu og Mexíkó eru enda mikil menningarleg og söguleg tengsl, og má búast við að langstærstur hluti seldra miða hafi runnið til áhangenda mexíkóska liðsins.
Á fundinum var Heimir spurður að því hvernig það yrði fyrir liðið að mæta slíku mótlæti. Áhangendur Mexíkó eru eftir allt þekktir fyrir að láta vel í sér heyra – mun leikurinn að einhverju leyti undirbúa strákana fyrir viðbrögð áhorfenda á HM?
Áður en blaðamaðurinn sleppti orðinu greip Heimir fram í blákalt: „Ég held að allir muni styðja Ísland í Rússlandi.“
Það skein þó fljótt í broshrukkurnar og yfir hlátur viðstaddra sagði hann mótlætið vissulega góða æfingu, líkt og allt annað í ferðinni, veri það stóru leikvangarnir, skararnir, athygli fjölmiðla eða hinir sterku andstæðingar.
„Þetta er góð æfing innan vallar sem utan.“