Heimir leitar svara í Ameríku

Íslensku landsliðsmennirnir ganga inn á æfingasvæðið í gær. Jón Guðni …
Íslensku landsliðsmennirnir ganga inn á æfingasvæðið í gær. Jón Guðni Fjóluson fremstur í flokki. mbl.is/Morgunblaðið/Anna Marsý

Heimir Hallgrímsson stendur með krosslagða handleggi yfir grindverkið sem heldur fjölmiðlum frá fótboltavellinum. Þennan gráa miðvikudagsmorgun eru tæplega þrjátíu bláklæddir leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu að gera sig klára fyrir æfingu á gervigrasi San José Háskóla í Sílíkondal.

Eftir að hafa gengið á röðina af erlendu fjölmiðlafólki í um 20 mínútur samþykkir Heimir að klára eitt viðtal í viðbót, áður en æfing hefst. 

Á þessu tiltekna augnabliki er einn leikmaður utan vallar, Hörður Björgvin Magnússon sem hrökk úr og svo aftur í hnjálið í leik með Bristol City um helgina.

„Hann er að labba upp tröppurnar þarna,” segir Heimir og nikkar aftur fyrir blaðamann mbl.is þar sem Hörður fer fetið með lækni liðsins sér við hlið, upp lága hæð við bílastæði vallarins.

„Ég hugsa að hann spili ekki, þú sérð hvað hann er mikið á æfingu, “segir Heimir. „Tökum það svona dag fyrir dag.”

Hörður Björgvin Magnússon tók ekki mikinn þátt í æfingunni í …
Hörður Björgvin Magnússon tók ekki mikinn þátt í æfingunni í gær en brá þó á leik með rúgbíbolta. mbl.is/Anna Marsý

Og þennan dag er margt annað sem kallar á athygli þjálfarans. Bandaríkjaferð landsliðsins er eftir allt ætlað að svara stórum spurningum, þá kannski einna helst hverjir hafa stand og styrk til að fara á heimsmeistaramótið í júní.

Tækifæri til að stimpla sig inn

„Við viljum fá nokkra hluti út úr okkar hópi,” segir Heimir um leikina sem framundan eru, við Mexíkó á föstudag og Perú á þriðjudag. „Við erum fyrst og fremst að leita svara. Við viljum gefa leikmönnum tækifæri til að stimpla sig inn í þennan hóp sem fer til Rússlands.”

Heimir segir ljóst að allt upp í átta þeirra sem valdir voru í ferðina munu ekki komast í lokahópinn. Þjálfararnir séu því ekki aðeins undirbúa leikmenn fyrir komandi átök heldur einnig fyrir höfnun. Og enn sitja nokkrir vongóðir heima.

„Það eru strákar, ungir og efnilegir, sem hafa núna tvo mánuði til að skína og stimpla sig inn, og svo líka leikmenn sem hafa verið með okkur áður,” segir Heimir og telur upp Rúnar Má  Sigurjónsson, Arnór Smárason og Viðar Ara Jónsson í því samhengi. 

„Við vitum nákvæmlega hvað þeir hafa að gefa þessum hópi og þeir eru alveg inni í myndinni ennþá. Núna vildum við skoða þessa leikmenn og einhvers staðar urðum við að byrja og stoppa,” heldur hann áfram. „30 manns er góð tala.”

Aron Einar Gunnarsson ræddi við Fox fyrir æfinguna.
Aron Einar Gunnarsson ræddi við Fox fyrir æfinguna. mbl.is//Anna Marsý

Einstaklingsmiðaðri stíll

Hvað föstudagsleikinn gegn Mexíkó varðar segir Heimir hann góðan undirbúning fyrir það sem koma skal á HM. Stíll liðsins sé öðruvísi en Ísland á að venjast.

„Einstaklingurinn hefur meira hlutverk í þessum stíl, og við höfum ekki leikið mikið við þannig lið. Hvernig það virkar gegn okkar liðsheild, það verður bara að koma í ljós,” segir hann en fullvissar blaðamann um að liðið sé undir stílbreytinguna búið.

Hörður Björgvin er horfin yfir hæðina og aftan við Heimi er æfingin hafinn. Hann teygir upp hægri hendina í því sem hann gengur frá grindverkinu og veifar í kveðjuskyni.

„Thank you,” segir þjálfarinn brosandi og beinir því næst orðum sínum hátt og snjallt yfir bláklæddan leikmannahópinn.

„Þeir sem geta eitthvað í vörn, komið með mér!”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert