Jón Daði, Kolbeinn og Hörður úti

Frá blaðamannafundinum sem fram fór á hádegi að staðartíma.
Frá blaðamannafundinum sem fram fór á hádegi að staðartíma. mbl.is/Ingibjörg Friðriks

Jón Daði Böðvarsson, Kolbeinn Sigþórsson og Hörður Björgvin Magnússon verða ekki með í leik Íslands gegn Mexíkó á Levi’s Stadium á morgun.

Þetta kom fram á blaðamannafundi íslenska liðsins í morgun þar sem Heimir Hallgrímsson, þjálfari liðsins, og Aron Einar Gunnarsson fyrirliði sátu fyrir svörum. Heimir tók alls 30 leikmenn með til Kaliforníu og munu hinir 27 vera í standi og tilbúnir í leikinn.

„Það eru allir æstir í að fá að sýna sig,“ sagði Heimir og bætti við að ferðin væri enda að mörgu leyti síðasta tækifærið til að komast í lokahóp liðsins fyrir HM.

Jón Daði Böðvarsson gengur inn á Levi's Stadium í kjölfar …
Jón Daði Böðvarsson gengur inn á Levi's Stadium í kjölfar blaðamannafundarins. mbl.is/Ingibjörg Friðriks

Þeir Jón Daði, Hörður og Kolbeinn eiga allir við meiðsli að stríða eftir nýlega leiki með liðum sínum en í samtölum við mbl.is hafa þeir allir sagst bjartsýnir á að vera fljótir í stand að nýju. Kolbeinn hefur þó verið lengur frá en hinir en hann fékk nýverið grænt ljós á spilamennsku að nýju eftir hátt í tveggja ára pásu sökum hnjámeiðsla.

Kolbeinn æfir lítið með liðinu sökum meiðsla en þjálfararnir nýta …
Kolbeinn æfir lítið með liðinu sökum meiðsla en þjálfararnir nýta ferðina til að kanna ástand hans. mbl.is/Ingibjörg Friðriks

Erlendir fréttamenn voru einnig forvitnir um Gylfa Þór Sigurðsson, sem er einnig frá vegna meiðsla og kom ekki til Bandaríkjanna með liðinu. Heimir sagðist ekki hafa neinar nýjar upplýsingar um ástand hans en að hann ætti ekki að vera of lengi í burtu. Læknar hafi gert ráð fyrir 6 til 8 vikum.

„Vonandi mun hann spila að nýju bráðum,“ sagði þjálfarinn en bætti við að liðið væri vant meiðslum og væri við öllu búið þegar kæmi að heimsmeistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert