Áþekk tilfinning og gegn Portúgal

Frá æfingu landsliðsins í dag.
Frá æfingu landsliðsins í dag. mbl.is/ Ingibjörg Friðriksdóttir

Hvernig býst Heimir Hallgrímsson við að fyrsti leikur landsliðsins á heimsmeistaramóti – nokkru sinni – muni fara? Allir þekkja jú Messi og það sem hann getur gert, en Ísland er óþekkt stærð.

„Hvernig munuð þið spila gegn Argentínu?“

Spurningar erlenda fréttamannsins á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í Levi's Stadium í gær voru settar fram í mikilli einlægni en við þeim finnast víst engin einföld svör. Allavega ekki svör sem þjálfarinn var tilbúinn að gefa.

„Viljiði að ég gefi upp taktíkina?” spurði Heimir og setti í brýrnar.

Salurinn hló og blaðamaðurinn flissaði vandræðalega. „Nei, í alvörunni.“

Heimir brosti. Líklega verður hægt að bera leikinn saman við fyrsta leik karlalandsliðs Íslands á EM gegn liði Portúgala sem síðar tryggði sér titilinn. 

Frá blaðamannafundi gærdagsins. Leikur Mexíkó og Íslands fer fram klukkan …
Frá blaðamannafundi gærdagsins. Leikur Mexíkó og Íslands fer fram klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma. mbl.is/Anna Marsibil

„Það var augnablik þar sem við gengum inn á leikvanginn og maður hugsaði að kannski værum við of lítil fyrir þetta,“ sagði hann en benti á að svo reyndist hreint ekki vera. Íslendingar gerðu jafntefli við Evrópumeistarana upprennandi og voru taplausir næstu fjóra leiki á eftir.

„Ég held að þetta verði áþekk tilfinning, en núna höfum við reynsluna,“ sagði Heimir.

„Við förum inn í keppnina með þá trú að við eigum skilið að vera þar eins og hver annar. Af hverju ættum við að trúa einhverju öðru en því að við eigum möguleika á að komast upp úr riðlinum?“

Landsliðið þekkir sinn styrk, hvernig það þarf að spila, hélt hann áfram. Liðið er ekki að reyna að vera neitt annað en það sjálft.

„Og þegar upp er staðið verður það okkar styrkleiki á heimsmeistaramótinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert