Vitum hverjir við erum

Óskar Örn Guðbrandsson, Aron Einar Gunnarsson, Heimir Hallgrímsson á fréttamannafundinum …
Óskar Örn Guðbrandsson, Aron Einar Gunnarsson, Heimir Hallgrímsson á fréttamannafundinum í gær. Ljósmynd/Ingibjörg Friðriks

Þeir voru alvarlegir í bragði, þjálfari og fyrirliði karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar þeir settust niður í gráu, teppalögðu pressuherberginu í Levi's Stadium í gær, andspænis yfir 40 fréttamönnum og ljósmyndurum.

Heimir Hallgrímsson tilkynnti upp á ensku að Kolbeinn Sigþórsson, Jón Daði Böðvarsson og Hörður Björgvin Magnússon yrðu ekki með gegn Mexíkó í nótt sökum meiðsla. Hinir 27 leikmenn hópsins væru hinsvegar til í slaginn. Það er mikið undir; aðeins 23 leikmenn verða valdir á HM og æfingaleikirnir framundan eru þeirra bestu tækifæri til að sýna sig og sanna.

Eftir að Aron Einar hafði svarað spurningum Fótbolta.net um líðan sína: „Ég er spenntur fyrir að spila“, um andstæðingana: „Liprir gæjar sem gaman verður að kljást við, og nýleg ummæli Jóa Berg í gamansömum tón í hans garð: „Ég nenni ekki að fara í einhverja sandkassaleiki“, virtust spurningar á hinu ástkæra ylhýra á þrotum. En þá tók Óskar Örn Guðbrandsson fjölmiðlafulltrúi til máls.

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í viðtali við erlendan fréttamann.
Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í viðtali við erlendan fréttamann. Ljósmynd/Anna Marsibil.

„Edda, þú ert með eitthvað,“ sagði Óskar og nikkaði í áttina að Eddu Sif Pálsdóttur, fréttamanni RÚV, sem sat spök á fjórða bekk. Þá hýrnaði yfir hinum tveimur.

„Já, eina góða,“ sagði Aron og hallaði sér fram. „Eina bombu,“ skaut Heimir prakkaralega að.

Edda lét ekki espast, hún vildi bíða. Með semingi sneri pallborðið sér aftur yfir á ensku.

Erlenda pressan hafði mikinn áhuga á hvernig Heimir myndi stilla upp gegn einstaklingsmiðuðu liði Mexíkó. Myndi það endurspegla áætlanir hans fyrir leik sumarsins gegn Argentínu?

„Viljiði að ég gefi upp taktíkina?“ spurði Heimir og setti í brýrnar.

Argentína á HM mun minna á Portúgal á EM, sagði þjálfarinn.

„Það var augnablik þar sem við gengum inn á leikvanginn og maður hugsaði að kannski værum við of lítil fyrir þetta,“ sagði hann en benti á hvernig fór um sjóferð þá. „Ég held að þetta verði áþekk tilfinning, en núna höfum við reynsluna.

Við vitum hverjir við erum, hvernig við þurfum að spila,“ hélt hann áfram. „Og það er styrkur liðsins.“

„Og allir Íslendingar virðast þekkja menn í liðinu,“ sagði erlendur blaðamaður en orðaði spurninguna um væntingar til liðsins illa svo pallborðið hváði við.

Ég er tannlæknir og hann er knattspyrnumaður

Heimir gaf glettnislega í skyn að hugsunin væri of djúp fyrir þá félaga „Ég er tannlæknir og hann er knattspyrnumaður.“ Blaðamaðurinn umorðaði spurninguna og Aron svaraði: „Ég held að það sé okkar einkenni, að vera auðmjúkir,“ sagði hann. „Tengslin milli liðsins og aðdáendanna eru engu lík.“

Heimir tók undir. „Íslendingar eru yfirleitt mjög bjartsýnir og þeir bjuggust við því að við færum á HM, en þeir eru líka raunsæir svo ef við töpum leik eru þeir bjartsýnir fyrir næsta leik á eftir.“

Erlendu blaðamennirnir tóku að seðjast. „Ef þið takið með íslenskar klappstýrur,“ laumaði einn að, „þá lofa ég að halda með ykkur“. Pallborðið hló og Edda Sif greip lokaorðið.

„Var þetta mikill hausverkur?“ spurði hún og átti við valið í byrjunarliðið. „Nei nei, við viljum sjá alla og gefa öllum tækifæri,“ sagði Heimir en bætti við að að sjálfsögðu yrði að forgangsraða. „Þetta eru alltof sterkir andstæðingar til að gera 11 breytingar á byrjunarliðinu.“

Heimir, Aron og Óskar gengu út. Viðstaddir risu úr sætum, tilbúnir að fylgjast með fyrstu mínútunum af æfingu liðsins. Starfsmaður vallarins hóf upp raust sína „Frá og með í morgun hafa 60 þúsund miðar selst á leikinn.“ Úti í horni herbergisins hallaði ráðvilltur mexíkóskur blaðamaður sér að starfsmanni KSÍ.

„Hvað meinti hann með að hann væri tannlæknir?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert