Bláar eyjur í hafi Mexíkóa

Lilja og Magnús skemmtu sér konunglega.
Lilja og Magnús skemmtu sér konunglega. mbl.is/

Mikið fjölmenni var á tapleik Íslands gegn Mexíkó í Kaliforníu í gærnótt en samtals seldust 68.917 miðar á leikinn. Mun það vera þriðji mesti fjöldi áhorfenda á fótboltaleik í sögu Levi’s Stadium. 

Þegar horft var yfir skarann var þó deginum ljósara að Íslendingar voru aðeins brotabrot þar af, en með herkjum mátti greina stöku bláar eyjur í grænu og rauðu hafi Mexíkóa. En þar gildir þó að sjálfsögðu hið gamalkunna um „fámennt en góðmennt“.

Engin eiginleg Íslendingastúka var á svæðinu en okkar fólk setti …
Engin eiginleg Íslendingastúka var á svæðinu en okkar fólk setti þó metnað í stuðninginn. mbl.is/ Ingibjörg Friðriksdóttir

Mexíkóarnir öskruðu „Áfram!

Lilja Magnúsdóttir, eiginmaður hennar og barn mættu til leiks í fánalitunum, en voru svo einu Íslendingarnir í sinni stúku. Sonur hennar, Magnús Þór Zarski, kippti sér lítið upp við lætin sem leiknum fylgdu enda búinn góðum eyrnahlífum, og var einna spenntastur fyrir þyrlunum sem flugu reglulega yfir meðan á leik stóð.

„Þar sem við fjölskyldan vorum bara umkringd Mexíkönum þá voru þeir farnir að hjálpa okkur  að öskra „Áfram!“ og „Koma svo!““ segir Lilja. Hún segir stemmninguna hafa verið virkilega skemmtilega og hafi verið gaman að sjá strákana spila, þótt ekki hafi farið betur.

„Svo voru margir að biðja um myndir með okkur eftir leikinn sem var nú frekar fyndið.“ 

Einn hópur Íslendinga hittist á Nonni's Bistro í Pleasanton, þar …
Einn hópur Íslendinga hittist á Nonni's Bistro í Pleasanton, þar sem Jón Gunnar Magnússon bauð upp á íslenskan mat og heimabruggað brennivín. Ljósmynd/ Aðsend

Bandaríkjamenn styðja Ísland

Íslenskir stuðningsmenn virðast raunar hafa verið einkar vinsælt myndefni meðal Mexíkóa. Daniel Ómar Frímannsson og sonur hans, Lennon Loki Danielsson – fjögurra ára, sátu í það minnsta margsinnis fyrir fólk sem vildi „mynd með víkingum“.

Loki var heldur ósáttur við markaleysi sinna manna, en Daniel, sem hefur verið búsettur í Kaliforníu síðan 2010, segir kvöldið þó hafa verið gott á heildina litið.

„Hér eru allir að tala um að Ísland sé þeirra lið á HM,“ sagði Daniel og meinar þá Bandaríkjamenn, sem heltust eftirminnilega úr lestinni í undankeppni mótsins.

„Við spurðum starfsmann í fótboltabúð hvort þeir myndu fá íslenska búninginn og hann nefndi að það hefðu ógeðslega margir spurt um hann fyrir HM. Og það eru ekki það margir Íslendingar á svæðinu.“ 

Lennon Flóki vildi sjá íslenskt mark en varð ekki að …
Lennon Flóki vildi sjá íslenskt mark en varð ekki að ósk sinni. Ljósmynd/Aðsend

Hvar eru stelpurnar?“

Svava María Atladóttir og dóttir hennar, Alodía Svövudóttir Petir, voru í hópi fjögurra fjölskyldna sem tóku lest frá Mountain View til Santa Clara til að vera viðstödd leikinn. Líkt og aðrir viðmælendur mbl.is hafði Svava á orði hvað stuðningsmenn Mexíkó voru ánægðir að sjá Íslendingana.

„Það hefði auðvitað verið skemmtilegra ef við hefðum unnið, en þetta var samt mjög skemmtilegt og virkilega einstakt tækifæri að styðja Ísland héðan úr Kísildalnum,“ sagði Svava og bætti við að leikurinn hafi verið frábær afsökun fyrir að hitta aðra Íslendinga á svæðinu. 

„Bestu athugasemd kvöldsins átti samt dóttir mín Alodía sem spurði „Mamma, þetta er æðislegt, en af hverju eru bara strákar að spila? Hvar eru stelpurnar?!““

Alodía var rækilega merkt Íslandi.
Alodía var rækilega merkt Íslandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert