Birkir Bjarnason viðurkennir að það hafi rifið í skapið á honum þegar Miguel Layun sparkaði aftur fyrir sig, undir lok vináttuleiks Íslands og Mexíkó og nótt. Á tímabili virtist hreinlega stutt í slagsmál á vellinum en Birkir segir þá hafa tekist í hendur að leik loknum.
„Það er náttúrulega ekki í lagi að sparka svona á eftir manni, en svona er þetta,” sagði Birkir í samtali við mbl.is.
„Hann sagðist hafa haldið að ég væri að fara að hefna einhvers. Þannig var það ekki.”
Birkir var eðlilega ekki sáttur við tapið. Ísland hafi átt mörg góð tækifæri til að skora, sérstaklega í fyrri hálfleik en einhvern veginn hafi það bara ekki gengið. Liðið hafi hinsvegar teflt fram mörgum nýjum leikmönnum og á heildina litið hafi leikurinn verið góður.
„Við viljum alltaf vinna, við viljum alltaf leggja okkur 100 prósent fram og mér finnst við hafa gert það í dag.”