Mexíkóskir aðdáendur hætta sér á hálan ís á vináttulandsleik Íslands og Mexíkó sem, þegar þetta er skrifað, stendur yfir á Levi's Stadium í Santa Clara, Kaliforníu.
Glöggir áhorfendur kunna að hafa tekið eftir því að þegar markmaður Íslands, Rúnar Alex Rúnarsson bjó sig undir að taka sitt fyrsta útspark fór mikill kliður um stúkuna þar sem aðdáendur réttu fram handleggi, hristu hendur og kyrjuðu „eeeeeeeh“.
Um leið og fótur Rúnars snerti boltann æptu áhorfendur síðan hátt og snjallt orðið „puto“.
Og hvað skyldi það nú þýða? Jú, „puto“ er niðrandi slangur yfir samkynhneigða karlmenn.
Ópið er allt annað en nýtt af nálinni. Raunar er um eina af uppáhaldshefðum mexíkóskra knattspyrnu áhangenda að ræða, eins konar Víkingaklapp þessara andstæðinga okkar í kvöld. Það rekur upptök sín til aðdáenda tiltekins félagsliðs í Mexíkó og breiddist svo út um landið þar til það náði til landsleikja.
En þó ópið sé vinsælt í stúkunni er FIFA síður en svo sátt og hefur reynt að knýja Mexíkana til að láta af þessum ljóta sið. Meðal annars með 85 þúsund dollara sekt í kjölfar undankeppni heimsmeistaramótsins þar sem athöfnin var höfð uppi í fimm leikjum alls.
Í júní 2017 snerist knattspyrnusamband Mexíkó á band FIFA og bað landa sína vinsamlegast um að koma liðinu ekki í frekari bobba. Höfðu áhorfendur þá hægt um sig í allavega einn leik en strax í október voru þeir aftur við sama heygarðshornið.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska landsliðsins hafði ekki heyrt af þessu háttalagi þegar mbl.is spurði hann út í málið á miðvikudag. Hann sagði þó að strákarnir okkar væru ýmsu vanir og að slíkt áreiti myndi ekki trufla okkar menn á vellinum.
Hvort FIFA muni fylgja eftir fyrri sektum með frekari refsingum er ekki ljóst að svo stöddu, en víst er að áframhaldandi fordómafull hróp gætu komið Mexíkó í klandur að nýju.