Einhverjir tóku eflaust andköf þegar Jóhann Berg Guðmundsson lagðist niður vegna meiðsla í leik Íslands og Perú í Bandaríkjunum í nótt. Meiðsli hans eru hins vegar ekki alvarleg.
Jóhann fór af velli 20 mínútum fyrir leikslok vegna meiðslanna en í samtali við fótbolti.net eftir leikinn kvaðst hann nánast búinn að jafna sig nú þegar. Jóhann er á leið aftur heim til Englands og ætti þá hugsanlega að geta leikið með Burnley gegn WBA á laugardaginn í ensku úrvalsdeildinni.
„Ég fékk bara högg á hnéskelina og er orðinn betri núna. Vonandi verður þetta allt í lagi. Þetta er orðið gott núna þannig að ég held að þetta verði nokkuð gott bara,“ sagði Jóhann við fótbolta.net.