Væntingar eru litlar

Víkingar byrja á heimavelli gegn Fylki í dag.
Víkingar byrja á heimavelli gegn Fylki í dag. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Víkingar komu sem afar ferskir nýliðar í úrvalsdeildina vorið 2014, eftir að hafa eytt fimm af síðustu sex árum þar á undan í 1. deildinni. Þeir náðu fjórða sæti, komust í Evrópukeppni og útlitið var bjart.

Talsverðar væntingar voru gerðar til liðsins í kjölfarið en Víkingar náðu ekki alveg að standa undir þeim og hafa endað í níunda, sjöunda og áttunda sæti deildarinnar á þeim þremur árum sem liðin eru síðan.

Í ár virðast flestir sammála um að tímabilið gæti reynst Víkingum afar erfitt, enda hafa þeir misst öfluga leikmenn frá síðasta ári. Logi Ólafsson, sá þrautreyndi þjálfari, á því snúið verkefni fyrir höndum. Markaskorarinn Geoffrey Castillion fór í FH, Ívar Örn Jónsson, sem lagði upp flest mörk liðsins í fyrra, fór í Val, varnarjaxlinn Alan Lowing lagði skóna á hilluna og þeir Dofri Snorrason og Róbert Örn Óskarsson markvörður og fyrirliði glíma við erfið meiðsli. Óvissa er með Róbert og Dofri, sem sleit hásin í janúar, verður ekki klár fyrr en í byrjun ágúst.

Aris Vaporakis, 23 ára Dani með nokkra úrvalsdeildarleiki að baki, mun hefja mótið í marki Víkinga sem einnig hafa fengið Serigne Mor Mbaye, 22 ára Senegala, sem hefur verið varamarkvörður í norsku og belgísku B-deildunum.

Sölvi Geir Ottesen er kominn heim í Fossvoginn eftir fjórtán ár erlendis og Víkingar vonast eftir því að hann bindi vörnina saman. Halldór Smári Sigurðsson hefur verið afar traustur í stöðu miðvarðar og þeir Sölvi ættu að geta verið öflugir í hjarta Víkingsvarnarinnar. Þeirra varamaður er Gunnlaugur Fannar Guðmundsson sem kom frá Haukum í fyrra en fékk fá tækifæri í byrjunarliðinu.

Um­fjöll­un­in um Víking í heild sinni er í Fót­bolt­inn 2018, sér­blaði Morg­un­blaðsins um Pepsi-deild­ir karla og kvenna, sem kom út í gær­morg­un.

Víkingur tekur á móti Fylki í fyrstu um­ferðinni klukk­an 18.00 í dag en leikið er á Víkingsvellinum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert