Þrjár Guðjohnsen-kynslóðir hrella ÍBV

Sveinn Aron Guðjohnsen fagnar sigurmarkinu gegn ÍBV síðasta haust. Hann …
Sveinn Aron Guðjohnsen fagnar sigurmarkinu gegn ÍBV síðasta haust. Hann skoraði tvívegis gegn Eyjamönnum í gær. mbl.is/Golli

Þrjár kynslóðir Guðjohnsen-feðga hafa gert Eyjamönnum sérstaklega lífið leitt í upphafi síns ferils og Sveinn Aron Guðjohnsen hélt þeirri hefð gangandi með því að skora tvívegis fyrir Breiðablik í 4:1 sigri á ÍBV í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gær.

Arnór Guðjohnsen hóf sinn meistaraflokksferil 16 ára gamall með því að skora fyrir Víking í 2:0 sigri á ÍBV í Vestmannaeyjum í maí 1978, í sínum fyrsta leik í efstu deild. Arnór er enn í dag leikjahæsti knattspyrnumaður Íslands í deildakeppni frá upphafi með 523 leiki, þar af 452 sem atvinnumaður erlendis. Hann skoraði 7 mörk í fyrstu 12 leikjum Víkings þetta ár en fór síðan beint í atvinnumennsku hjá Lokeren, nýorðinn 17 ára gamall.

Eiður Smári Guðjohnsen, sonur Arnórs, byrjaði sinn meistaraflokksferil 15 ára gamall með Val vorið 1994. Hann skoraði sitt fyrsta mark á ferlinum í Vestmannaeyjum í maí 1994, í annarri umferð deildarinnar, þegar hann tryggði Valsmönnum jafntefli, 1:1, gegn ÍBV.

Þetta sama haust var hann orðinn leikmaður PSV Eindhoven í Hollandi. Eiður hefur leikið fleiri deildaleiki erlendis en nokkur annar íslenskur knattspyrnumaður eða 481 leik samtals, og 504 þegar leikir á Íslandi bætast við.

Fjögur mörk af fimm gegn ÍBV

Sveinn Aron, sonur Eiðs Smára, skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í júní 2017 þegar hann kom inná sem varamaður hjá Val og skoraði sigurmark liðsins, gegn engum öðrum en Eyjamönnum, 2:1.

Ekki nóg með það. Sama haust, í september 2017, var Sveinn Aron kominn til Breiðabliks. Í næstsíðustu umferð deildarinnar skoraði hann sigurmark í uppbótatíma, 3:2, gegn ÍBV, og gulltryggði Kópavogsliðinu áframhaldandi sæti í deildinni.

Sveinn Aron hélt hefðinni gangandi í gær með því að halda áfram að skora gegn ÍBV, tvívegis eins og áður sagði. Hann hefur nú skorað fimm mörk í efstu deild og fjögur þeirra eru gegn ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert