Rúnar Kristinsson þjálfari KR-inga þekkir það vel að vinna bikarmeistaratitla en þrisvar sinnum hefur KR hampað bikarmeistaratitlinum undir hans stjórn. KR dróst á móti Breiðabliki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla en dregið var til þeirra nú í hádeginu.
„Liðin eru flest góð sem eru komin í 16-liða úrslitin svo það skiptir kannski ekki máli hver andstæðingurinn er. Allir þjálfarar óska sér þess að fá heimaleik en við vorum ekki svo heppnir að þessu sinni,“ sagi Rúnar við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um dráttinn í 16-liða úrslitunum.
„Það er ljóst að við mætum sterkum andstæðingi. Blikarnir eru mjög góðir og er með nýjan þjálfara sem er að gera mjög góða hluti. Ég er búinn að sjá gott Blikalið í vetur og í byrjun móts svo þetta verður erfiður leikur á móti þeim.
Ef þú ætlar að vinna bikarinn þá þarftu að fara í gegnum erfiða mótherja á leiðinni. Við viljum auðvitað komast eins langt og hægt er. Mér hefur gengið vel í bikarnum og auðvitað hef ég trú á mínu liði. Við leggjum mikla áherslu á að ná langt í bikarnum,“ sagði Rúnar sem stýrði KR til sigurs í bikarkeppninni 2011, 2012 og 2014.