Víkingur R. og Valur gerðu markalaust jafntefli í Víkinni í 2. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld í ansi bragðdaufum og rólegum leik. Hvorugt liðið átti þrjú stig skilið og niðurstaðan sanngjörn.
Víkingar voru meira með boltann á fyrstu mínútunum en náðu ekki að skapa sér alvöru færi. Hinum megin gekk Valsmönnum illa að halda boltanum innan liðsins og fór leikurinn mun meira fram á vallarhelmingi gestanna, án þess að marki Antons Ara Einarssonar væri mikið ógnað.
Vladimir Tufegdzic var nálægt því að skora um miðbik hálfleiksins en Eiður Aron Sigurbjörnsson var réttur maður á réttum stað og bjargaði á línu. Skömmu áður hafði Tobias Thomsen skallað boltann fram hjá, en það var fyrsta færi Valsmanna í leiknum. Guðmundur Ársæll Guðmundsson, dómari leiksins, var í essinu sínu, og lyfti gula spjaldinu sex sinnum, þrátt fyrir að leikurinn væri ekki grófur.
Staðan í hálfleik var markalaus í mjög döprum fótboltaleik, þar sem skelfilegur völlur hafði sitt að segja um gæði leiksins. Síðari hálfleikurinn byrjaði á svipaðan hátt og fyrri hálfleikurinn spilaðist og var lítið um færi.
Dion Acoff fékk hins vegar besta færi leiksins fram að því á 57. mínútu. Hann fékk þá sendingu frá Tobias Thomsen, lék á Emil Andra Auðunsson í marki Víkings en hann setti boltann hárfínt fram hjá úr þröngu færi. Emil Andri kom inn í markið í stað Aris Vaporakis sem meiddist í fyrri hálfleik.
Nikolaj Hansen fékk upplagt tækifæri til að koma Víkingum yfir eftir rúmlega klukkutíma leik er hann komst einn á móti Antoni Ara Einarssyni í marki Vals. Markmaðurinn lokaði hins vegar vel á hann og bjargaði. Eftir það tóku Valsmenn völdin á vellinum og sóttu stíft, án þess að skapa sér virkilega gott færi. Sölvi Geir Ottesen reyndist þeim oftar en ekki erfiður, en hann var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi í 14 ár.