Yrði mikill heiður að spila fyrir Ísland

Cloé Lacasse í leik ÍBV og FH.
Cloé Lacasse í leik ÍBV og FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næsti nýliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu gæti orðið hin 24 ára gamla Cloé Lacasse. Þessi mikli markahrókur, frá Sudbury í Ontario-fylki í Kanada, hefur fest rætur í Vestmannaeyjum og vonast til þess að fá íslenskan ríkisborgararétt á þessu ári.

„Eftir því sem mér skilst er búið að skila öllum gögnum inn og það er bara verið að vinna úr þeim, sem getur tekið tíma. Ég þarf því bara að bíða og vona það besta,“ segir Cloé, sem verið hefur í úrtakshópum landsliða Kanada en aldrei spilað landsleik, og yrði því gjaldgeng í íslenska landsliðið fengi hún ríkisborgararétt. Hún fylgist vel með íslenska landsliðinu og er afar áhugasöm um að spila fyrir liðið:

„Það er ekki í mínum höndum en ef KSÍ og þjálfarinn telja að ég geti hjálpað til þá yrði það að sjálfsögðu mjög mikill heiður að spila fyrir landsliðið,“ segir Cloé.

Cloé er sá leikmaður sem Morgunblaðið varpar ljósi á nú þegar 2. umferð Pepsi-deildarinnar er lokið. Hún átti stórgóðan leik í 3:1-sigri ÍBV á FH, skoraði mark mínútu eftir að Eyjakonur hófu leik á Íslandsmótinu og bjó svo til annað fyrir Kristínu Ernu Sigurlásdóttur með frábærum tilþrifum. Þær Cloé, Kristín Erna og Clara Sigurðardóttir mynduðu sóknartríó ÍBV í leiknum.

Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag er rætt við Cloé Lacasse og birt úrvalslið 2. umferðar í Pepsi-deild kvenna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert