Blikar enn taplausir á toppnum

Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks hirðir boltann af höfði Alberts Watsons …
Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks hirðir boltann af höfði Alberts Watsons miðvarðar KR í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Breiðablik og KR gerðu 1:1-jafntefli í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Alvogenvellinum í Vesturbænum í kvöld. Mörkin komu með skömmu millibili um miðjan seinni hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum. KR-ingar voru meira með boltann en Blikar beittu skyndisóknum þegar þess gafst færi með Gísla Eyjólfsson áberandi. Óskar Örn Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason komust næst því að skora fyrir KR en staðan var enn markalaus þegar liðin gengu til búningsklefa í leikhléi.

Blikar urðu að gera breytingu í byrjun seinni hálfleiks vegna meiðsla Andra Rafns Yeoman og kom Viktor Örn Margeirsson inn á í hans stað. KR náði betri tökum á leiknum en Blikar voru alltaf tilbúnir í skyndisóknir og í einni slíkri slapp Willum Þór Willumsson einn gegn markverði og kláraði færið af yfirvegun, á 65. mínútu.

Ekki liðu nema tvær mínútur þar til að KR hafði jafnað metin en það gerði Kennie Chopart af stuttu færi eftir stórkostlega sendingu Óskars. Hvorugu liðinu tókst að skapa sér almennilegt færi eftir þetta og niðurstaðan varð því 1:1-jafntefli.

Blikar eru því áfram taplausir, með 10 stig á toppi deildarinnar, en KR er með 5 stig.

Mbl.is var í Vesturbæ og fylgdist með leiknum í beinni textalýsingu. 

KR 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Nokkuð sanngjörn niðurstaða myndi ég telja.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert