Jafntefli í sveiflukenndum leik Vals og Stjörnunnar

Birkir Már Sævarsson og Hilmar Árni Halldórsson eigast við í …
Birkir Már Sævarsson og Hilmar Árni Halldórsson eigast við í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Hari

Valur og Stjarnan skildu jöfn, 2:2, í uppgjöri tveggja efstu liða síðasta tímabils en þau mættust í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

Valsmenn eru þá með 6 stig eftir þrjú jafntefli í röð en Stjörnumenn eru með 3 stig og hafa enn ekki unnið leik.

Valsmenn byrjuðu leikinn af krafti og réðu öllu inni á vellinum fyrstu 20 mínúturnar án þess þó að skapa sér sérlega mörg færi. En eftir 20 mínútur skoraði Hilmar Árni með skalla eftir flotta skyndisókn Stjörnunnar. 0:1.

Við það breyttist leikurinn og Stjörnumenn sóttu í sig veðrið. Sóknarleikur Valsmanna var slakur og hvorugu liðinu tókst að skapa sér færi. Var það ekki fyrr en á 45. mínútu að Valsmenn jöfnuðu metin. Fékk Tobias Thomsen þá vítaspyrnu sem Patrick Pedersen skoraði úr af öryggi, 1:1.

Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum en gæðin voru ekkert sérstök, til að byrja með alla vegana. Eftir 64 mínútur breyttist það þegar Baldur Sigurðsson skallaði fyrirgjöf Hilmars Árna í netið af alefli, 1:2. Við það breyttist leikurinn aftur og Valsmenn settu meiri pressu á Stjörnuna á meðan Stjörnumenn beittu skyndisóknum.

Valsmenn náðu svo að jafna eftir misheppnað úthlaup Haraldar í marki Stjörnunnar. Sigurður Egill náði þá frákastinu og skoraði með nákvæmu skoti, 2:2. Bæði lið reyndu að sækja til sigurs en jafntefli var niðurstaðan.

Valur 2:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Uppbótatíminn er 4 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert