„Við fengum alveg fullt af færum“

Kolbeinn sést hér tækla leikmann KA.
Kolbeinn sést hér tækla leikmann KA. mbl.is/Árni Sæberg

Kolbeinn Þórðarson stóð sig gríðarlega vel í sínum fyrsta leik í byrjunarliði Breiðabliks í sumar þegar Breiðablik sigraði KR 1:0 í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu. Kolbeinn, sem er fæddur árið 2000, var hógvær og hrósaði liðsfélögum sínum að leik loknum.

„Það var mjög gaman að fá traustið,“ sagði Kolbeinn við mbl.is að leik loknum en hann fór nokkrum sinnum illa með miðjumenn KR þegar hann lék framhjá þeim.

Kolbeinn sagði að sér hefði liðið vel inni á vellinum. „Það er auðvelt að komast inn í gott lið. Hópurinn er góður og andrúmsloftið frábært. Maður kemur bara inn og spilar sinn leik.“

Blikar voru mun sterkari í leiknum en Kolbeinn var ánægður með að halda hreinu þó honum hafi fundist liðið geta skorað fleiri mörk. „Við fengum alveg fullt af færum. Eitt er nóg af þú færð ekki neitt á þig og það dugði í dag.“

Kolbeinn hló þegar hann var spurður að því hvort hann væri farinn að setja pressu á Ágúst Gylfason, þjálfara Breiðabliks, að vera í byrjunarliðinu í næsta leik. „Það verður að koma í ljós. Mér fannst ég spila ágætlega í dag en ég er rólegur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert