„Við gáfum þeim mark og þeir eru með gott lið. Það var því algjör óþarfi að gefa þeim þetta á silfurfati,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði Breiðabliks eftir 1:0 tap liðsins gegn Stjörnunni í 7. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
„Við vitum allir hvernig Stjarnan spilar. Þeir eru fastir fyrir og líkamlega sterkir. Við reyndum að spila okkar bolta sem mér fannst ganga ágætlega á köflum. Stundum á maður bara ekki sinn besta dag og þetta var einn af þeim dögum. Stjarnan átti sigurinn skilinn, þótt þeir hafi fengið hann gefins en mér fannst þeir líklegri í leiknum. Núna er bara að núllstilla sig og einbeita sér að næsta leik.“
Gunnleifur gerði sig sekan um afar slæm mistök í leiknum en Breiðablik er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni eftir frábæra byrjun á Íslandsmótinu.
„Auðvitað er hundfúlt að gera mistök sem kosta leikinn. Það er oftast þannig, þegar að markmaður gerir mistök að þau kosta mark og það er alltaf leiðinlegt. Ég er hálf miður mín núna en reyni að hrista það af mér fyrir næsta leik. Við höfum trú á eigin getu en þetta er erfið deild. Það er bara sama gamla klisjan núna, við tökum einn leik fyrir í einu og getum vonandi snúið genginu við,“ sagði markmaðurinn að lokum.