Loks fer Stjarnan á grasvöll

Hilmar Árni Halldórsson er búinn að skora sjö mörk í …
Hilmar Árni Halldórsson er búinn að skora sjö mörk í sex leikjum á gervigrasi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjöunda umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu hefst í dag með þremur leikjum.

Klukkan 16 taka norðanmenn í KA á móti Víkingi R. á Akureyrarvelli í áhugaverðum slag í neðri hluta deildarinnar. KA-menn sitja í 10. sætinu með fimm stig og Víkingar eru sæti ofar með stigi meira. Bæði lið hafa aðeins unnið einn af fyrstu sex leikjum sínum.

KR getur farið á toppinn

Þegar klukkan slær 18 verður leikur ÍBV og KR flautaður af stað á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Heimamenn í ÍBV eygja þar möguleika á að lyfta sér úr fallsæti, eftir að hafa lyft sér úr botnsætinu með sínum fyrsta sigri í síðustu umferð, 3:1-gegn Keflavík.

KR-ingar geta aftur á móti skellt sér á toppinn með sigri, allavega þangað til að liðin þrjú fyrir ofan spila sína leiki í umferðinni.

Pálmi Rafn Pálmason, fjögurra marka maður fyrir KR til þessa.
Pálmi Rafn Pálmason, fjögurra marka maður fyrir KR til þessa. mbl.is/Árni Sæberg

Takist KR-ingum að innbyrða stigin þrjú, fær topplið Breiðabliks færi á að endurheimta toppsætið á nýjan leik þegar það tekur á móti Stjörnunni á Kópavogsvelli klukkan 20. Eftir góða byrjun og þrjá sigurleiki í röð hefur Blikum aðeins fatast flugið, gert tvö jafntefli og tapað einum í síðustu þremur leikjum.

Fyrsti leikur á grasi í 7. umferð

Athyglisvert er að Stjarnan er að fara spila sinn fyrsta leik á grasi í sumar, þrátt fyrir að sex umferðir séu liðnar. Stjörnumenn hafa spilað fimm sinnum á Samsung-vellinum í Garðabæ eftir að hafa víxlað heimaleikjum við bæði KR og Fylki en þeirra eini útileikur til þessa var gegn Val, sem einnig leikur á gervigrasi.

Þrátt fyrir alla þessa heimaleiki hefur byrjun Stjörnunnar verið döpur. Liðið situr í 8. sætið og hefur aðeins unnið einn leik, 3:0, gegn Fylki, en annars gert fjögur jafntefli og tapað einum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert