ÍA gerði sér góða ferð í Safamýrina og sótti stigin þrjú með 1:0-sigri á Fram í 5. umferð Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu í dag.
Fyrri hálfleikurinn var ansi tíðindalítill en á 17. mínútu meiddist Arnór Daði Aðalsteinsson og varð að bera hann af velli. Arnór yfirgaf síðar Safamýrina í sjúkrabíl en óvíst er hversu alvarleg meiðsli hans eru.
Skagamenn brutu svo ísinn á 50. mínútu þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu. Framarar gerðu atlögu að marki gestanna eftir þetta og uppskáru vítaspyrnu á 67. mínútu þegar Guðmundur Magnússon var felldur inn í teig.
Guðmundur er með fimm mörk fyrir Fram í deildinni til þessa og steig sjálfur á punktinn. Honum brást hins vegar bogalistin og varði Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, slaka spyrnu hans. Nær komust Framarar svo ekki og unnu því Skagamenn að lokum sterkan útisigur.
Skagamenn jafna þar með HK að stigum á toppi deildarinnar en eru áfram í 2. sætinu á markatölu. Framarar eru áfram í 4. sæti með sjö stig.