Erum allar með leiðtogablóð í æðum

Fanndís Friðriksdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Agla María Albertsdóttir á æfingu …
Fanndís Friðriksdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Agla María Albertsdóttir á æfingu landsliðsins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Slóveníu á Laugardalsvelli á mánudag ætli liðið sér á HM á næsta ári.

Með sigri á Slóvenum yrði staða liðsins góð fyrir „úrslitaleiki“ við Þýskaland og Tékkland í byrjun september. Á mánudag þarf Ísland hins vegar, í fyrsta sinn í rúman áratug, að spjara sig í mótsleik án fyrirliðans Söru Bjarkar Gunnarsdóttur sem er meidd. Annar frábær miðjumaður liðsins, Dagný Brynjarsdóttir, er ólétt, svo ljóst er að Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fær nýjan félagsskap á miðjunni og hún segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur:

„Á síðustu tveimur árum höfum við misst út marga leikmenn og gengið í gegnum eitthvað þessu líkt áður. Sara og Dagný eru frábærir leikmenn og auðvitað er mikill missir að þeim, en við erum rosalega heppnar að hafa svona stóran og sterkan hóp. Hver sem spilar er hungraður í að spila fyrir íslenska landsliðið og ég hef engar áhyggjur af því hverjar koma inn,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir við Morgunblaðið fyrir æfingu á Kópavogsvelli í gær. Hún segir engan skort á leiðtogahæfileikum í fjarveru fyrirliðans:

„Ég held að við séum allar með þetta íslenska leiðtogablóð í okkur. Við erum allar mjög góðar andlega saman og ég held að það þurfi engin að breyta neinu til að fylla í eitthvert skarð. Við erum allar góðir leiðtogar og við munum sýna það. Ég hef engar áhyggjur af því að við tæklum þetta verkefni ekki vel,“ segir Gunnhildur. Það truflar hana heldur ekki að allir reikni með sigri Íslands sem vann Slóvena 2:0 á útivelli í apríl.

„Alls ekki. Við höfum verið í þessari stöðu áður, en erum líka nýbúnar að spila við þær og vitum hve erfiðar þær eru. Það er erfitt að vita hvernig þær koma til leiks en við þurfum að ná í þrjú stig og ef við eigum góðan dag, spilum okkar leik, þá hef ég engar áhyggjur af því. Við erum vanar því að þurfa að klára þessa leiki, eins og við gerðum í apríl, og vitum að það er jafnmikilvægt að vinna núna og í september,“ segir Gunnhildur, sem átt hefur góðu gengi að fagna með Utah Royals á sínu fyrsta tímabili í Bandaríkjunum.

„Þetta er allt annar fótbolti en ég er vön í Evrópu en ég elska þetta – fæ að spila mína stöðu, þjálfarinn treystir mér og ég fíla þetta í botn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert