Leikur vel skipulagðra liða er skák

Sveinn Aron Guðjohnsen í baráttunni við nokkra Fylkismenn á Kópavogsvelli …
Sveinn Aron Guðjohnsen í baráttunni við nokkra Fylkismenn á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum lengi í gangi,“ sagði Andri Rafn Yeoman, leikmaður Breiðabliks, eftir 2:0-sigur gegn Fylki í 9. umferð Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Fylkismenn voru sterkari aðilinn framan af og létu mörkin bíða eftir sér en eftir að Andri braut ísinn á 65. mínútu var sigur Blika aldrei í hættu.

„Þegar þú kemst yfir í svona leik þarf andstæðingurinn að koma framar á völlinn og þá opnast leikurinn aðeins.“

Árbæingar pressuðu stíft í upphafi leiks og gáfu Blikum fá færi á að spila út úr vörninni. Andri viðurkenndi að það var erfitt í byrjun að eiga við.

„Það var það, jafnvel þó við bjuggumst við því. Það gekk erfiðlega á köflum að komast út úr þessari fyrstu pressu en það var mikilvægt að vera hugrakkir og þora. Þegar það gekk svo upp fengum við hættulegar stöður.“

„Þegar þú mætir svona duglegu og vel skipulögðu liði þá er þetta svolítil skák þangað til að við náum að brjóta þá. Þegar við komumst svo yfir er erfitt að eiga við okkur því við getum stjórnað leikjum á ýmsa vegu. Við gerðum þetta, að mér fannst, nokkuð fagmannlega eftir að við komumst yfir.“

Klisjan á heldur betur við

Breiðablik fór vel af stað í sumar, vann fyrstu þrjá og svo ekki næstu fjóra. Liðið hefur nú unnið síðustu tvo og er í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir toppliði Vals. Andri segir deildina eiga eftir að vera svona alveg til enda.

„Það byrjaði vel, fengum mikla athygli og menn voru hátt uppi. Svo gekk ekki alveg jafn vel í nokkrum leikjum, en þetta er bara jöfn deild og þetta verður svona. Þegar við eigum þessa lélegu kafla verðum við að halda skipulagi og passa að missa ekki mörg stig.“

Er það ekki bara gamla góða klisjan, einn leikur í einu?

„Eins og deildin er að spila, þá sést það bara að þessi klisja á alveg heldur betur við. Allir leikir eru erfiðir og við erum nokkuð þekkt stærð, allir vita hvernig við spilum. Það verður bara erfiðara eftir því sem á líður að brjóta þessi lið niður,“ sagði hann að endingu.

Andri Rafn Yeoman t.h.
Andri Rafn Yeoman t.h. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert