Í fyrrakvöld var tilkynnt að Fanndís Friðriksdóttir hefði skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Vals. Fanndís kemur úr atvinnumennsku í Frakklandi en þar lék hún með Marseille. Ljóst er að koma Fanndísar mun styrkja lið Vals mikið í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Hún hefur skorað 104 mörk í 197 leikjum hér á landi auk þess að hafa leikið 87 A-landsliðsleiki og skorað í þeim 11 mörk. Fanndís þarf reyndar að bíða til 15. júlí til þess að fá leikheimild en þá opnast félagsskiptaglugginn. Hún mun því ekki vera gjaldgeng í leikjunum mikilvægu á móti Þór/KA og Breiðabliki.
Í viðtali við Morgunblaðið sagðist Fanndís hafa haft nokkur tilboð í höndunum og að það sé mikill léttir að vera loksins búin að velja: „Þetta er búið að hanga svolítið yfir mér í svolítinn tíma þannig að það er gott að vera búin að taka ákvörðun. Ég þurfti að velta ýmsu fyrir mér. Það komu upp tilboð úti og fleiri hérna heima þannig að ég þurfti að skoða hvað hentaði mér best og tók mér bara góðan tíma í það.“
Fanndís, sem er 28 ára gömul, hafði áður en hún skipti yfir í Val spilað allan sinn meistaraflokksferil á Íslandi með Breiðabliki. Spurð hvort það hefði ekki verið freistandi að fara aftur í Kópavoginn sagði hún svo vera: „Jú, auðvitað. Ég skoðaði það mjög vandlega. Niðurstaðan var sú að mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Mér finnst skemmtilegt að spila fótbolta hérna heima og niðurstaðan var Valur.“
Sjá má viðtalið við Fanndísi í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.