Heimir Hallgrímsson fráfarandi þjálfari karlalandsliðs Íslands hefur mestan áhuga á að taka við félagsliði, nú eftir að hann hættir störfum með íslenska landsliðið, og horfir þá helst til enskumælandi landa.
Heimir sagði þetta í viðtali við mbl.is nú í hádeginu en hann boðaði þá til fréttamannafundar í kjölfar þess að gefið var út um tíuleytið í morgun að hann myndi hætta störfum sem landsliðsþjálfari eftir að hafa unnið með karlalandslið Íslands frá ársbyrjun 2012.
Hvað langar þig mest til að gera? Er freistandi eftir allan þennan tíma með landslið að fara aftur í þjálfun á félagsliði?
„Já, það leiðinlega við að vera landsliðsþjálfari er að þú ert lítið úti á grasinu. Hérna heima hef ég getað brotið það upp með því að fara í knattspyrnuskóla og akademíur úti á landi, tekið æfingar hér og þar, en það er ekkert sem þjálfara langar meira til að gera en að vera úti á grasinu og þjálfa.
Það væri spennandi að fara aftur í það umhverfi að þjálfa félagslið. Gott landslið er líka spennandi en það myndi ekki metta ákveðna þörf sem ég hef akkúrat núna.
Ég er mjög sáttur við það að bíða í nokkra mánuði. Ég tel mig þurfa á því að halda og ef ég ætla í nýtt verkefni þarf ég aðeins að breyta um hugsunarhátt, horfa á deildakeppni í einhvern tíma og temja mér nýja hugsun. En þú veist aldrei hvað gerist á morgun, þannig er raunveruleikinn. Ég er allavega laus og óbundinn til að hlusta á allt og það eru forréttindi. Ég er ekki að flýta mér, það eru líka forréttindi að þurfa ekki að hoppa á það fyrsta sem býðst.
Ef eitthvað pirrar mig er óklárað verk, en mér finnst ég geta sett X við þetta verkefni og sagt: Þetta er klárað.“
Er einhver heimshluti þar sem þú vilt helst þjálfa, Bretland, Norðurlöndin, Mið-Evrópa, eða annað?
Nei, ef ég ætti að fara í dag yrði það að vera enskumælandi land. Auðvitað er margt spennandi í heiminum, ég hef kynnst því undanfarin ár hvað fótboltaheimurinn er risastór, og það eru miklar framfarir í öðrum löndum en við erum vanir að horfa til."
Eftir tapleikinn gegn Króatíu á HM 26. júní mátti lesa út úr orðum þínum á fréttamannafundinum að þú værir að kveðja. Varstu þá þegar búinn að ákveða að hætta störfum sem landsliðsþjálfari?
„Já, ég held að þú hafir þar metið stöðuna rétt. Ég hef alltaf verið tapsár og á alltaf erfiðara með að tjá mig eftir tapleiki. Við vorum ekki sáttir við að fá bara eitt stig út úr HM, þó riðillinn hafi verið sterkur, því við ætluðum okkur stærri hluti. Þó frammistaðan hafi verið góð þá skilaði hún bara einu stigi og við hefðum viljað gera betur.
Á þeim tímapunkti var ég örugglega ákveðinn í að hætta en ég ætla að vera heiðarlegur með það að frá þeim tíma er hugurinn búinn að snúast í marga hringi. Það var gott að vera búinn að tilkynna að ég ætlaði að taka mér tvær vikur til að hugsa málin, og það var gott að fá þessar tvær vikur. Mér veitti ekki af því, og það er gott að hafa tekið þessa ákvörðun á þennan hátt því ég tel að hún sé tekin á mjög faglegum nótum, en ekki á tilfinningalegum nótum eftir tapleik.
Ég er búinn að nýta þennan tíma vel og skoða alla þætti, og ég er svo stoltur af stöðunni eins og hún er í dag. Það eru forréttindi að fá að skila liðinu af sér á þessum tímapunkti og í þessari stöðu. Ég er alls ekki að hrósa sjálfum mér fyrir að hafa gert þetta allt, það hafa ótrúlega margir komið að því. Það verður virkilega áhugavert að sjá næstu dagana þegar það fréttist að landsliðsþjálfarastaða Íslands sé laus, því það munu stór nöfn og mörg nöfn bjóða sig fram til að taka við henni.“
Sérðu þá fram á breytingar hvað landsliðið varðar? Þið byggðuð upp öfluga umgjörð og þróuðuð leikaðferð liðsins sem skilaði góðum árangri. Áttu von á að miklar breytingar verði á því?
„Ja, ég held að það sé alltaf gott að hrista upp í þessu módeli sem við höfum unnið eftir. Það er fastmótað, við höfum unnið eftir því í langan tíma, þó við höfum alltaf verið að reyna að bæta og aðlaga það. Sama með leikstílinn, ég held að leikmennirnir þekki það vel þessi tvö til þrjú leikkerfi sem við höfum notað að það sé alveg óhætt að koma með eitthvað nýtt.
Og ég held að það sé líka gott á þessum tímapunkti fyrir landsliðið og fyrir KSÍ að fá einhvern sem sér hlutina frá öðru sjónarhorni en bara því sem við höfum verið að gera. Við höfum verið ansi fastheldnir á hvernig við gerum hlutina. Þeir hafa virkað og ég hugsa að það sé gott að halda strúktúrnum og starfsfólkinu en fá svo einhvern með nýjan vinkil sem getur hrist aðeins upp í hlutunum.
Er eitthvað fast í hendi hjá þér eða ertu á byrjunarreit hvað nýtt starf varðar, núna þegar það er orðið opinbert að þú hættir með landsliðið?
„Það hafa svo sem komið einhverjar fyrirspurnir sem gerir ekkert fyrir mig og hafði ekki áhrif á þessa niðurstöðu og þessa ákvörðun mína um að hætta með landsliðið. En samt gefur það mér kannski von um að það bjóðist einhvern tíma seinna eitthvað skemmtilegt starf.
Þetta er auðvitað ekki besti tíminn fyrir þjálfara til að vera laus, nú eru öll tímabil byrjuð alls staðar og allir búnir að ráða sér þjálfara. Ég mat þetta þannig að ég hafi gott af því að fá smá tíma til þess að ljúka þessu, klára ýmis mál sem ég hef látið sitja á hakanum, og svo að bæta aðeins þekkinguna á því sem hefur verið að gerast í fótboltanum.“
Hvað áttu nákvæmlega við með því?
„Bæði að fara á námskeið, og þá að fara eftir sjö ár í landsliðsumhverfi, fara og vera hjá þjálfurum sem maður er búinn að kynnast og kynnast félagsliðaumhverfinu upp á nýtt. Það er langt síðan ég þjálfaði ÍBV, en nú er raunveruleikinn allt annar og maður þarf alltaf í þessu lífi að vera að læra eitthvað nýtt. Ég er bara þannig að ég vil vera vel undirbúinn fyrir það sem ég tek mér fyrir hendur, hvort sem það er nýtt tungumál, ný deild, eða hvað sem er," sagði Heimir Hallgrímsson við mbl.is.